Rannsóknaverkefni

 

Viðhorf ferðamanna í flugi KEF-AK

Könnun á viðhorfum ferðamanna í beinu innanlandsflugi milli Keflavíkur og Akureyrar. Kannaður er hugur íbúa á Norðurlandi og ferðamanna sem hafa notað nýja flugleið Air Iceland Connect milli Keflavíkur og Akureyri í tengslum við utanlandsferðir og/eða ferðir til Íslands.

Verkefnið er unnið í samstarfi RMF, Markaðsstofu Norðurlands, Air Iceland Connect og Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri.

Umsjón: Eyrún Jenný Bjarnadóttir [ejb@hi.is]

 

 

Ábyrg ferðamennska á norðurslóðum

Sjálfbær þróun náttúrutengdrar ferðamennsku á Norðurslóðum: RMF tekur þátt í undirbúningi þverfaglegs rannsóknasamstarfs vísindafólks í sjávarlíffræði, mannvistarlandfræði og ferðamálafræði í tengslum við verkefnið Sustainable Tourism and Responsible Practices of Arctic Coastal Communities and Seascapes.

Markmiðið er að fá fram nauðsynlegar upplýsingar til að undirbyggja ákvarðanatökur sem miða að sjálfbærri þróun, vöktun og rekstri ferðamannastaða á norðurslóðum sem byggja á aðdráttarafli hafsins og lífríki þess. Rannsóknarhópurinn, sem samanstendur af íslenskum, norskum og áströlskum fræði- og vísindamönnum, hlaut styrk úr Arctic Studies-áætluninni til að kosta undirbúningsvinnu og umsóknagerð í samkeppnissjóði. Undirbúningurinn hófst í nóvember 2016, en snemma árs 2017 var hafist handa við hönnun þverfaglegs heildræns rannsóknaverkefnis undir heitinu Responsible Tourism in Actic Seascapes (ReSea) sem miða myndi að öflun nauðsynlegra upplýsinga til að undirbyggja ábyrga hvala- og selaskoðun á norðurslóðum. Fyrirhugað rannsóknasvæði er Ísland, Noregur og Grænland og verður unnið að umsókn á árinu 2017.

Umsjón með hluta RMF: Dr. Auður H Ingólfsdóttir [audur@unak.is]. Verkefnastjóri er Dr. Jessica Faustini Aquino sérfræðingur hjá Selasetri Íslands og lektor við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum.

 

 

Könnun á viðhorfum Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu

Haustið 2014 stóð Ferðamálastofa fyrir könnun á viðhorfum Íslendinga til ferðaþjónustu í samstarfi við RMF og Háskólann á Hólum. 

Fyrri hluta ársins 2017 hófst undirbúningur fyrir framhaldskönnun en markmiðið var að kanna viðhorf landsmanna til ferðaþjónustu og ferðafólks á Íslandi um haustið og hvort einhverjar breytingar á viðhorfum landsmanna hafi átt sér stað frá síðustu könnun á landsvísu 2014.

RMF kallaði saman rýnihóp sem hafði það hlutverk að fjalla gagnrýnið um spurningalistann frá árinu 2014 og skilaði hópurinn greinargerð með nýjum spurningalista og rannsóknaráætlun til Stjórnstöðvar ferðamála. Gagnaöflun fór fram á tímabilinu september til nóvember 2017. 

Snemma árs 2018 birtust niðurstöður könnnunarinnar í sjö svæðis-samantektum: 

Viðhorf íbúa á Austurlandi til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á höfuðborgarsvæðinu til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Norðurlandi til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Reykjanesi til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Suðurlandi til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Vestfjörðum til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Vesturlandi til ferðamanna og ferðaþjónustu

Hér má lesa niðurstöðuskýrslu frá könnun ársins 2014.

Verkefnið er unnið með fjárstuðningi frá ANR.

Umsjón: Eyrún Jenný Bjarnadóttir [ejb@hi.is]

 

 

Komur skemmtiferðaskipa

RMF hefur unnið að öflun og úrvinnslu gagna um komur skemmtiferðaskipa til hafna landsins á undanförnum árum. Gögnin eru unnin til að ná fram samræmdum tölum um fjölda farþega og áhafnarmeðlima sem hvert skip skilar til viðkomuhafna, sem og brúttóþyngd skipa og dvalartíma þeirra í höfnum.

Í framhaldinu hefur RMF stýrt og tekið þátt í rannsóknum sem taka til umferðar skemmtiferðaskipa.

 

Móttaka skemmtiferðaskipa

Vorið 2017 stóð RMF fyrir viðtalsrannsókn meðal hagsmunaaðila móttöku og þjónustu við skemmtiferðaskip þar sem leitað var reynslu þeirra og upplifunar, auk sýnar á tækifæri, áskoranir, ávinning og stöðu verkferla og stefnumótunar um umferð skipanna hérlendis.

Til rannsóknar á móttöku og þjónustu við skemmtiferðaskip í héraði, var afmarkað rannsóknasvæði á Norðurlandi sem náði frá Fjallabyggð í vestri til Norðurþings í austri. Þar var rætt við fulltrúa hafna, sveitarfélaga og ferða- þjónustu. Að auki var rætt við fulltrúa skipaumboða, ferðaheildsala og hagsmunasamtaka sem svöruðu fyrir aðstæður á landsvísu.

Verkefnið var styrkt af Menningar- og viðurkenningarsjóði KEA. 

Niðurstöðuskýrsla rannsóknarinnar birtist snemma árs 2018 

 ... það er bara, hver á að taka af skarið? Móttaka skemmtiferðaskipa við Norðurland 

Póla á milli? Samanburðarrannsókn

Framhaldsverkefni þar sem niðurstöður viðtala við hagsmunaaðila skemmtiferðaskipa eru bornar saman við niðurstöður sambærilegrar viðtalsrannsóknar sem framkvæmd var meðal móttöku- og þjónustuaðila skemmtiferðaskipa á Nýja-Sjálandi.

Skoðuð eru líkindi og það sem ólíkt er í aðstæðum landanna tveggja, upplifun þeirra og sýn á greinina.

Unnið er að útgáfu sameiginlegrar fræðigreinar sem stefnt er að birta árið 2018.

Þórný Barðadóttir fer með umsjón og framkvæmd rannsóknaverkefnanna en um rannsókn á Nýja Sjálandi sá dr. Tracy Harkison, Auckland University of Technology.

Unnið er að frekari starfi og útfærslum rannsóknaverkefna sem taka til umferðar skemmtiferðaskipa hérlendis sem sem erlendis.

Umsjón: Þórný Barðadóttir [thorny@unak.is]

 

Ferðahegðun farþega skemmtiferðaskipa - frumrannsókn

Könnun meðal farþega skemmtiferðaskipa sem sóttu Akureyri heim síðsumars 2017.

Spurningalistar voru lagðir fyrir farþegana fyrir brottför skipanna. Spurt var um ferðahegðun farþega, útgjaldaliði, ákvörðunar- og innkaupaferla auk ánægju farþega eða óánægju með ferð og heimsóknastað.

Meginmarkmið frumrannsóknarinnar var að kanna möguleika aðferðarinnar og sjá hvort farþegar væru annars vegar fáanlegir og hins vegar hefðu tíma til að svara slíkum spurningalistum.

Niðurstöður framkvæmdaþáttar rannsóknarinnar er að vel gekk að ná til farþega og að svörun var góð. Stefnt er að birta samantekt niðurstaðna svara vorið 2018.

Umsjón: Þórný Barðadóttir thorny[@]unak.is  

  

 

Umfang og áhrif ferðaþjónustu í byggðum landsins

Í verkefninu er megin áhersla lögð á eftirspurnarhlið atvinnugreinarinnar og greiningu gesta til svæðisins. Leitast er við að finna svör við því hverjir það eru sem koma og hvað dregur þá til svæðisins. Einnig eftir hverju þeir sækjast og hvað þeir skilja eftir. Svör við slíkum spurningum eru mikilvægar í þeim uppbyggingarfasa sem atvinnugreinin er í víða um land auk þess sem þau gagnast við gerð stefnumótandi stjórnunaráætlana fyrir ferðaþjónustu í hverjum landshluta. Spurningalisti var lagður fyrir erlenda ferðamenn á sex stöðum landsins, Seyðisfirði, Egilsstöðum, Húsavík, Mývatnssveit, Stykkishólmi og Ísafirði á sumarið 2016.
Verkefnið er unnið í samstarfi Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri og Þekkingarnets Þingeyinga. Verkefnið er styrkt af Stjórnstöð ferðamála, en er framhald verkefnis sem hófst í júní 2015, þá styrkt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.

Niðurstöðuskýrslur ferðavenjukannanna birtust í árslok 2017 í sex samantektum sem sjá má hér að neðan:

Erlendir gestir á Seyðisfirði sumarið 2016

Erlendir gestir á Egilsstöðum sumarið 2016

Erlendir gestir á Húsavík sumarið 2016

Erlendir gestir í Mývatnssveit sumarið 2016 

Erlendir gestir í Stykkishólmi sumarið 2016

Erlendir gestir á Ísafirði sumarið 2016 

Umsjón: Lilja B. Rögnvaldsdóttir [liljab@hi.is]

 

 

Talningar ferðamanna: dreifing eftir landssvæðum

Verkefnið Dreifing ferðamanna um landið á rætur að rekja til verkefnis sem styrkt var af Ferðamálastofu árið 2014. Verkefnið byggist á aðferðafræði við að meta fjölda ferðamanna á áfangastöðum með því að telja bifreiðar sem þangað koma.

Með niðurstöðum þessara talninga er mögulegt að móta aðgerðir varðandi skipulag ferðaþjónustunnar á landsvísu, uppbyggingu innviða og þjónustu á hverjum áfangastað.

Verkefnið var fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti árin 2016-2017. 

Skýrsla með niðurstöðum ársins 2016: Dreifing ferðamanna um landið: Talningar ferðamanna á áfangastöðum 

Í skýrslunni er greint frá niðurstöðum um fjölda ferðamanna á 24 áfangastöðum víða um landið. Þar er einnig sýnt á korti hvernig ferðamenn sem koma til landsins í ágúst og október 2016 dreifðust um landið, metið eftir þeim áfangastöðum sem skýrslan greinir frá.

Skýrsla með niðurstöðum ársins 2017: Dreifing ferðamanna um landið – Talningar ferðamanna á áfangastöðum út árið 2017

Þar er greint frá því hvernig ferðamenn dreifast um landið, í febrúar, ágúst og október 2017 og hvernig dreifingin hefur breyst síðustu ár. Áfangastaðir í Mývatnssveit eru skoðaðir sérstaklega og bornir saman við talningar Vegagerðarinnar á þjóðveginum. Fjöldi ferðafólks í tveimur fjarlægum sveitum frá höfuðborgarsvæðinu er síðan borinn saman, það er í Mývatnssveit og Skaftafellssýslum. Í lok skýrslunnar eru settar fram tölulegar niðurstöður fyrir 21 áfangastað ferðamanna.

Ritrýnd fræðigrein eftir Gyðu Þórhallsdóttur um aðferðafræði rannsóknarinnar birtist í ritinu Journal of Outdoor Recreation and Tourism í september 2017.

Umsjón: Dr. Rögnvaldur Ólafsson og Gyða Þórhallsdóttir [gth85@hi.is]

 

 

Samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu

Tilviksrannsókn: Höfn - Mývatnssveit - Siglufjörður

Rannsóknin felur í sér greiningu á því hvaða áhrif hinn hraði vöxtur ferðaþjónustunnar, samhliða lengra ferðamannatímabili, hefur á samfélag heimamanna, menningu og daglegt líf.
Ljóst þykir að ferðaþjónusta getur leitt til breytinga á samfélögum og samsetningu þeirra. Slíkar breytingar geta verið af félagslegum og menningarlegum toga, sem og hagrænum og umhverfislegum. Auk þess þarf að huga að jákvæðum og neikvæðum áhrifum ferðaþjónustu á íbúa og menningu þeirra þar sem uppbygging í ferðaþjónustu þarf að vera í sátt við samfélag og heimamenn.
Verkefni styrkt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.
Verkefninu lauk í árslok 2016 með útgáfu tveggja skýrslna sem lesa má hér að neðan.

Greining á áhrifum ferðaþjónustu á ferðamennsku í einstökum samfélögum

Áhrif ferðaþjónustu og ferðamennsku á einstök samfélög: niðurstöður símakönnunar

Umsjón: Eyrún Jenný Bjarnadóttir [ejb@hi.is] í samvinnu við Arnar Þór Jóhannesson á Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri

 

 

Markhópagreining fyrir íslenska ferðaþjónustu

Ítarleg markhópagreining á erlendum mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Unnið verður að líkani til að afla gagna frá markaðssvæðum landsins. Með því verður lagður grunnur að viðmiðum til að skilgreina markhópa út frá lífsstíl og félagshópum. Einnig verða lögð drög að grunnflokkun gesta í markhópa fyrir miðaða markaðssetningu, ímyndaruppbyggingu og vöruþróun áfangastaða og þjónustu, enda hefur slík gagnaöflun til rannsókna forspárgildi.
Verkefni styrkt af Stjórnstöð ferðamála, er framhald verkefnis sem hófst í júní 2015 og var styrkt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.
Gefnar hafa verið út tvær áfangaskýrslur um verkefnið. Sú fyrri var gefin út af RMF í árslok 2015 en sú síðari af Háskólanum á Bifröst haustið 2016. 

Markhópagreining fyrir íslenska ferðaþjónustu: Skýrsla 1 - Markmið, bakgrunnur og aðferðir

Markhópagreining fyrir íslenska ferðaþjónustu: Skýrsla 2 - Spurningagrunnur

Verkefninu lauk haustið 2017 með útgáfu Markhópalíkans fyrir íslenska ferðaþjónustu sem vistað er á vef Íslandsstofu. 

Umsjón með hluta RMF: Dr. Edward Huijbens og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir [gudrunthora@unak.is]

 

 

Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu

Tilviksrannsókn: Húsavík, Mývatnssveit, Höfn og Siglufjörður

Meginmarkmið verkefnisins er greining á efnahagslegum áhrifum ferðaþjónustu í byggðum landsins. Unnið verður með hliðsjón af alþjóðlegri forskrift ferðaþjónustureikninga. Rekstrarlegar ástæður og misjafnt aðgengi að upplýsingum um ferðaþjónustukaup er misjafnt eftir landshlutum. Opinberar hagtölur getur því í einhverjum tilfellum þurft að aðlaga að staðháttum.
Rannsóknin tekur til fjögurra byggðakjarna: Húsavíkur, Mývatnssveitar, Siglufjarðar og Hafnar í Hornafirði. Staðirnir hafa allir gengið í gegnum hræringar í atvinnulífi undanfarin ár. Samdráttur hefur orðið í grunnatvinnuvegunum, sér í lagi sjávarútvegi, á sama tíma og miklar framtíðarvæntingar eru bundnar við ferðaþjónustu.
Rannsóknin byggir á verkefni sem unnið hefur verið í Þingeyjarsýslum frá árinu 2013. Það verkefni snýr að aðlögun alþjóðlegra aðferða við gerð ferðaþjónustureikninga að afmörkuðum svæðum landsins í þeim tilgangi að greina efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu á svæðinu.

Hluti verkefnisins sneri að Þingeyjarsýslum lauk vorið 2016 með útgáfu áfangaskýrslu sem gefin var út á ensku og sjá má að neðan:
Economic Effects of Tourism in Þingeyjarsýslur Analysis at the sub-national level in Iceland

Í árslok 2016 komu svo út skýrslur fyrir hvern hinna fjögurra byggðakjarna:
Erlendir gestir á Siglufirði sumarið 2015
Erlendir gestir á Höfn í Hornafirði sumarið 2015
Erlendir gestir í Mývatnssveit sumarið 2015
Erlendir gestir á Húsavík sumarið 2015

Umsjón: Lilja B. Rögnvaldsdóttir [liljab@hi.is]

 

 

Áhrif Svartárvirkjunar á ferðamennsku og útivist

Rannsókn unnin að beiðni Verkís hf. fyrir hönd SSB Orku, sem hluti af mati á umhverfisáhrifum virkjunar í Svartá í Bárðardal í Þingeyjarsveit. Með rannsókninni voru dregnar fram grunnupplýsingar um ferðaþjónustu, ferðamennsku og útivist sem mögulega raskast vegna fyrirhugaðrar virkjunar og ályktað um möguleg áhrif Svartárvirkjunar á Bárðardal, Norðausturland og á Ísland sem áfangastað ferðamanna.
Verkið byggði á viðtölum við innlenda og erlenda ferðaþjónustuaðila, útivistarfólk og ferðamenn sem og fyrirliggjandi gögnum og niðurstöðum um upplifun og viðhorf ferðamanna, ferðaþjónustuaðila og útivistarfólks til virkjana í vatnasviði Skjálfanda og annars staðar í náttúru Íslands. Matið var samstarfsverkefni RMF og Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri en unnið fyrir Verkís sem hluti mats á umhverfisáhrifum virkjunarinnar.

Verkefninu lauk í janúar 2017 með skýrslu sem lesa má hér að neðan.
Áhrif Svartárvirkjunar í Bárðardal-Þingeyjarsveit á ferðaþjónustu og ferðamennsku/útivist

Umsjón: Dr. Gunnþóra Ólafsdóttir í samvinnu við Hjalta Jóhannesson, sérfræðing hjá RHA og Guðrúnu Þóru Gunnarsdóttur [gudrunthora@unak.is] forstöðumann RMF.

 

 

Yndisævintýri (Slow Adventure Tourism / SAINT)

Verkefnið er unnið í samvinnu við stofnanir í Noregi og Skotlandi og er styrkt af Norræna Atlantssamstarfinu (NORA). RMF er í samvinnu við Háskólasetur Háskóla Íslands á Hornafirði um innlenda hluta verkefnisins. Markmiðið er að bera kennsl á vörur og þjónustu sem snúast um „yndis-ævintýri“ (e. slow adventure) á Norðurslóðum á starfsvæði NORA og hvað það er sem einkennir þessar ferðir. Með því að búa til skilgreiningu fyrirtækja sem bjóða yndisævintýraferðir og bera kennsl á fyrirtæki sem bjóða slíkar ferðir og hvata þeirra voru gerðar leiðbeiningar um hvernig má skipuleggja ferðaþjónustu með þessum hætti sem gæti þannig verið frekar í takt við umhverfi og náttúru. Verkefnið byggir á samstarfi sem hófst haustið 2013, en vorið 2015 hlaut verkefnið þriggja ára styrk frá norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (e. Northern Periphery and Arctic Programme - NPP).

Í árslok 2016 kom út á vegum RMF skýrsla þar sem hugmyndafræði  SAINT var beitt til greiningar á niðurstöðum sem fengust við fyrstu fyrirlögn markhópaspurningalista - um það verkefni í heild er annars vísað til umfjöllunar hér ofar á síðunni.
Slow Adventure in Iceland: Segmentation study of potential inbound visitors to Iceland

Á vegum verkefnisins hafa komið út fréttabréf um stöðu þess. Hér má lesa fréttabréf jan. 2018

Verkefninu lauk snemma árs 2018 en í vinnunni urðu til; viðmið til kynningar á yndisævintýraferðum gegnum vefmiðla auk þess sem unnin voru kynningarmyndbönd sem sýna hvað ólíkir þátttakendur sköpuðu í þessum anda á sínum heimasvæðum.

Frekari upplýsingar, hlekki á myndbönd og efni fyrir áhugsama sem vilja bjóða yndisævintýraferðir má finna hér: www.slowadventure.org

Dr. Edward H. Huijbens [edward@unak.is] sinnti hluta RMF í verkefninu.

   

 

Tourism, Wellbeing and Ecosystem Services (TObeWELL)

Tourism, Wellbeing and Ecosystem Services er samvinnuverkefni 29 Evrópulanda sem styrkt er af rammaáætlun Evrópusambandsins (COST) og er leitt af háskólanum í Exeter.
Verkefnið snýst um að þætta saman hugmyndir um þjónustu vistkerfa með áherslu á lífkerfi, við aðra þætti mannlegrar tilvistar; menningu, heilsu og vellíðan gegnum ferðamennsku. Verkefnið miðar að því að tengja saman rannsóknir á vellíðan sem byggja á þjónustu vistkerfa og notkun þeirra gegnum ferðamennsku, útivist og afþreyingu. Til grundvallar verkefninu liggur að skapa ný samvinnu rannsóknarverkefni um hvernig ferðamennska getur bætt heilsu og vellíðan með samlífi við auðlindir, náttúru og sjálfbæra nýtingu vistkerfa, um leið og reynt verður að leggja mat á virði slíkrar nýtingar. Þetta mun nást með samstarfi ólíkra rannsóknastofnana um alla Evrópu sem starfa munu saman á grundvelli fjögurra vinnuhópa.
Fjallar fræðilega um samband ferðamennsku, vellíðunar og þjónustu vistkerfa og leitast við að smíða hugtakaramma um það.
Mun fjalla um aðferðafræðilegar áskoranir við að kynna sér þetta samband.
Skoðar samhengi öldrunar, vellíðunar og þjónustu vistkerfa.
Skoðar stefnumótun og hvernig niðurstöður hinna hópanna geta upplýst mótun heilbrigðisstefnu.
Umsjón með hluta RMF: Dr. Edward H. Huijbens [edward@unak.is] Áætluð verklok eru lok 2017.

 

  

Fjölmiðlar og ferðaþjónusta

Sumarið 2016 var ráðist í forrannsókn (e. pilot study) á umfjöllun íslenskra fjölmiðla um ferðamennsku og ferðaþjónustu hérlendis. Til skoðunar var hvort og þá hvernig áhersla miðlanna hefði breyst samfara örum vexti ferðaþjónustunnar á síðustu árum. Valdar voru til greiningar fréttir hérlendra netmiðla dagana 15-21. janúar og 15-21 júlí árin 2010-2016. Unnið var út frá kenningum um annars vegar mikilvægi fjölmiðla í upplýsingu almennings og hins vegar mótunaráhrifum fjölmiðla í þjóðmálaumræðunni hverju sinni. Greiningarflokkar tóku meðal annars mið af umfangi umfjöllunar og vægi ferðaþjónustu í fréttum; hverjir helstu viðmælendur miðlanna höfðu verið; hvort áhrif ferðaþjónustu væru sýnd jákvæð eða neikvæð; hvort áhersla væri lögð á orðnar eða þarfar aðgerðir stjórnvalda og ef annarra þá hverra. Stefnt er að framhaldi verkefnisins.

Umsjón: Þórný Barðadóttir [thorny@unak.is]

  

 

Ferðamennska, jarðminjar og skart (NordMin)

Forverkefni

Verkefnið Ferðamennska, jarðminjar og skart (e. Tourism, landmarks and gemmology) snéri að samspili ferðaþjónustu og námuvinnslu til nýsköpunar og vöruþróunar. Forverkefnisstyrkur fékkst hjá Norrænu ráðherranefndinni til að leiða saman starfshóp til að vinna styrkumsókn að stærra verkefni. RMF stýrði verkefninu en íslenskir samstarfsaðilar voru ÍSOR, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Breiðdalssetur ses. Erlendir samstarfsaðilar voru Háskólinn í Álaborg, Danmörku, NordGem AB og Kristallen I Lannavaara í Svíþjóð.
Verkefnið fór af stað í lok árs 2015 með verkefnafundi á Íslandi. Tveir fundir voru haldnir á árinu 2016 og sá RMF um skipulagninguna. Annar fundurinn var fjarfundur en hinn fundurinn var haldinn á Arlandaflugvelli í Svíþjóð. Hópurinn vann fullmótaðar umsóknir sem voru sendar til Norræna Atlantssamstarfsins (NORA) og Vestnorræna ferðamálaráðsins (NATA).
Forverkefninu lauk í október 2016.

Umsjón: Dr. Edward H. Huijbens og Eyrún Jenný Bjarnadóttir [ejb@hi.is]