Dreifing ferðamanna um landið

Í febrúar 2017 var gefin út skýrslan: Dreifing ferðamanna um landið – Talningar ferðamanna á áfangastöðum. Höfundar hennar eru Rögnvaldur Ólafsson sem stýrir verkefninu og Gyða Þórhallsdóttir doktorsnemi í ferðamálafræði.

Í skýrslunni er greint frá niðurstöðum um fjölda ferðamanna á 24 áfangastöðum víða um landið. Þar er einnig sýnt á korti hvernig ferðamenn sem koma til landsins í ágúst og október 2016 dreifðust um landið, metið eftir þeim áfangastöðum sem skýrslan greinir frá. Einnig eru í skýrslunni skoðaðar nokkrar ferðaleiðir út frá gögnum höfunda og gögnum Vegagerðarinnar; um Snæfellsnes, um Suðurfirði Vestfjarða, Vatnsnes og um Mývatnssveit.

Ferðamenn eru taldir mun víðar á landinu á vegum höfunda. Fyrir Vatnajökulsþjóðgarð er talið á um 40 áfangastöðum í þjóðgarðinum, bæði á hálendi og láglendi. Einnig er talið að Fjallabaki nyrðra og syðra. Alls er því talið á um 90 stöðum, af þeim eru um 50 sumarteljarar en hinir eru heilsársteljarar á láglendi.

Þróuð hefur verið aðferðafræði til að meta fjölda ferðamanna á áfangastöðum með því að telja bifreiðar sem koma á áfangastaðinn. Aðferðin var prófuð í tengslum við verkefni Ferðamálastofu á áfangastöðum á Suður- og Vesturlandi 2014 til 2015 og reyndist vel. Niðurstöðurnar má finna í skýrslunni: Fjöldi ferðamanna á átta áfangastöðum á Suður- og Vesturlandi 2014 til 2015. Aðferðin hefur nú verið þróuð frekar fyrir tilstilli styrks frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Þegar bifreiðateljarar eru notaðir til að finna hversu margir gestir koma á áfangastað þarf að vita hlutfallið á milli einkabíla og rúta sem og meðalfjölda í hvorri tegund bifreiða. Það var áður gert handvirkt en sumarið 2016 voru gerðar tilraunir með að finna hlutfallið sjálfvirkt. Notaður var umferðagreinir sem fenginn var að láni frá Vegagerðinni. Aðferðin reyndist vel og verður notuð áfram.

Talningaverkefnið byggist á þremur styrkjum sem höfundar hafa fengið undanfarin þrjú ár. Frá Ferðamálastofu árið 2014. Þá voru settir upp teljarar á láglendisstöðum á Suður- og Vesturlandi. Árið 2015 styrkti atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið í gegnum Rannsóknamiðstöð ferðamála talningaverkefnið. Þá voru settir upp teljarar á Norðurlandi, í Mývatnssveit og við Hvítserk. Sumarið 2016 fékk verkefnið styrk frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu til að reka verkefnið og þá bættust við teljarar á Reykjanesi, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi.

Með niðurstöðum þessara talninga er mögulegt að móta aðgerðir varðandi skipulag ferðaþjónustunnar á landsvísu, uppbyggingu innviða og þjónustu á hverjum áfangastað og byggja á áreiðanlegum gögnum um fjölda ferðamanna. Niðurstöðurnar sýna einnig hvaða áfangastaði ferðamenn sem koma til landsins heimsækja.

Skýrsluna má lesa hér