Dreifing ferðamanna um landið: Þjóðarspegillinn 2017

Gyða flytur erindi sitt.
Gyða flytur erindi sitt.

Á nýafstöðnum Þjóðarspegli hélt Gyða Þórhallsdóttir erindið: Fjöldi ferðamanna í byggðum landsins.

Kynntar voru niðurstöður um fjölda ferðamanna á áfangastöðum í febrúar og ágúst 2017.

Sýnt var fram á að vinsælustu áfangastaðirnir eru á Suðurlandi óháð árstíð en einnig að Mývatnssveit er mikilvægur áfangastaður yfir sumarið. Árstíðasveifla er enn mikil víða á landsbyggðinni þó hún sé lítil á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt gistináttagögnum Hagstofunnar. Þau gögn sýna vel hvar ferðamenn gista en ekki hvaða áfangastaði þeir heimsækja.

Mörg sveitarfélaganna, sérstaklega á Suðurlandi taka á móti miklum fjölda ferðamanna á sína áfangastaði. Tekjurnar verða þó ekki til þar heldur á höfuðborgarsvæðinu þar sem ferðamennirnir gista, borða og kaupa í mörgum tilfellum afþreyingu. Sveitarfélögin úti á landi sitja því uppi með kostnaðinn en tekjurnar fara annað.

Skýrslur með niðurstöðum talninganna eru væntanlegar í upphafi árs 2018, annars vegar á vegum Vatnajökulsþjóðgarðs og hins vegar á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins.