Farþegakannanir RMF hljóta styrk frá KEA

Mynd: kea.is
Mynd: kea.is

RMF hefur hlotið styrk úr Menningar- og viðurkenningasjóði KEA, til áframhaldandi rannsókna meðal farþega skemmtiferðaskipa hérlendis.

Styrkinn hlaut RMF til að framkvæma kannanir meðal farþega skemmtiferðaskipa á Siglufirði, Húsavík og í Hrísey sumarið 2019.

Markmið kannana meðal farþega skemmtiferðaskipa er að safna upplýsingum um ferðahegðun, neyslu og ákvarðanatöku þessara gesta íslenskra sjávarbyggða og leggja grunn að mati á því hverju heimsóknirnar skila til ferðaþjónustu á viðkomandi stöðum.
Sumarið 2017 stóð RMF fyrir forkönnun meðal farþega við Akureyrarhöfn með það að markmiði að kanna gengi og framkvæmd við fyrirlagnir spurningalista til farþega.
Nú í sumar, 2018, var svo ráðist í framkvæmd könnunar þar sem spurningalistar tóku mið af spurningum sem í öðrum könnunum eru lagðar fyrir ferðamenn sem ferðast um landið á eigin vegum. Verið er að leggja lokahönd á samantektir á niðurstöðum þessara kannana.

Í viðtalsrannsókn RMF meðal hagsmunaaðila móttöku og þjónustu við skemmtiferðaskip, kemur m.a. fram að áskoranir við móttöku farþega í smærri höfnum eru að hluta aðrar en í þeim fjölsóttari. Þá er óljóst hvernig farþegar í smærri höfnum nýta þjónustu og afþreyingu á heimsóknasvæðum.

Niðurstöður kannana meðal farþega á ólíkum móttökusvæðum skemmtiferðaskipa veita möguleika á samanburði og dýpri innsýn í ferðahegðun, óskir og ákvarðanir farþega, sem svo aftur er mikilvæg forsenda fyrir ákvarðanatökur og uppbyggingu þjónustu við skemmtiferðaskip og farþega þeirra hérlendis.

Þórný Barðadóttir tekur við styrkúthlutun KEA 2018. Mynd: ÞBÞórný Barðadóttir veitti styrknum viðtöku við úthlutunarhátíð KEA sem fram fór í Hofi á Akureyri þann 1. desember sl.