Ferðamál á hugvísindaþingi HÍ

Dagana 15. og 16. mars heldur hugvísindasvið Háskóla Íslands árlegt hugvísindaþing þar sem fram er borið það helsta í fræðum sviðins í stuttum fyrirlestrum og málstofum ætluðum fræðasamfélaginu jafnt sem almenningi. Þingið hefst 13.00 föstudaginn 15. Mars og lýkur 17.00 daginn eftir. Málstofan um ferðamál er 10-12 á laugardaginn 16. mars. Sjá nánar hér

Í ár munu ferðamálin hljóta sess á þinginu en ein málsstofa er tileinkuð þeim sérstaklega. Ber hún titilinn: Iceland – Niceland – Disneyland: Frá verufræði til verkefna í ferðaþjónustu.

Málstofan snýst um hvort – og þá hvernig – ferðaþjónustan er að breyta íslensku samfélagi í gegnum markaðssetningu á menningu og náttúru, ímyndasköpun og vörumerkjavæðingu. Markmið málstofunnar er að ræða þann nýja veruleika sem er mögulega að verða til í kjölfar vaxandi umfangs ferðaþjónustu, hvar merki hans er að finna, hvernig þau birtast og hvernig má greina þau. Erindi á málstofunni ganga út frá því hvernig upplifun og skilningur ferðafólks á ferðum sínum er túlkaður og hagnýttur af markaðsfólki greinarinnar og hvernig það svo reynir að sníða landið og íbúa þess í mót þeirra hugmynda. Raun og vera fólks á ferð og flugi verður þannig verkfæri í höndum fólks í viðskiptum og er markmið málstofunnar að skilja hvaða þýðingu það hefur fyrir land og þjóð.

Fyrirlesarar á málstofunni verða:

  • Björn Þorsteinsson, sérfræðingur við Heimspekistofnun: Flóttaleiðir: Náttúran sem rísóm
  • Edward H. Huijbens, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála: Markaðsvirði landslags?
  • Gunnar Þór Jóhannesson, lektor í land- og ferðamálafræði: Rúnkadúnkadúnk: Rannsókn margfaldra veruleika áfangastaðar
  • Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Höfn: Veruleikinn í Ríki Vatnajökuls – WOW!