Fimm verkefnahugmyndir fá fé

Á síðasta fundi stjórnar Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, sem haldin var að Hólum í Hjaltadal dagana 29. og 30. maí var ákveðið að ganga til samninga við 5 aðila um fjármögnun verkefna sem þeir höfðu sent inn hugmyndir um. Auglýst var í lok mars eftir hugmyndum að rannsóknarverkefnum í ferðamálum og alls bárust 11 hugmyndir að verkefnum af ýmsum toga. Eftir vandlega yfirferða stjórnar var forstöðumanni falið að ganga frá samningum um 5 verkefni þar af en þau er:

· Ferðaþjónusta og jaðarsamfélög - áhrif og afleiðingar

· Þjóðhagslegur ávinningur ferðaþjónustu

· Þolmörk ferðamennsku

· Sustaining Tourism in Protected Areas in Iceland

· Ferðaþjónusta í byggðum landsins

Verkefnin endurspegla vel breidd þríþættra rannsóknaráherslna RMF, þar sem horft er til efnahagsáhrifa ferðaþjónustu og samspils menningar og umhverfis við ferðamennsku. Verkefnin taka einnig á ferðaþjónustu og ferðamennsku bæði í samhengi einstakra byggðarlaga sem og landsins alls og í náttúru landsins. Einnig endurspegla verkefnin vel breidd þeirra stofnanna sem að baki RMF standa.

Að neðan fylgja stuttir útdrættir um hvert verkefni í þeirri röð sem þau eru talin, en öll verða þau unnin í náinni samvinnu við RMF:

Ferðaþjónusta og jaðarsamfélög - áhrif og afleiðingar

Rannsóknin, sem er doktorsverkefni Guðrúnar Þóru Gunnarsdóttur, snýst um hin margslungnu áhrif ferðaþjónustu á samfélög í jaðarbyggðum. Markmið rannsóknarinnar er annars vegar að skoða tilurð og sköpun áfangastaðar í jaðarbyggð og hins vegar hvernig það ferli hefur áhrif á skilning íbúa á heimabyggðinni, umhverfinu og samfélaginu. Svæðin sem skoðuð verða eru þrjú: Strandir, Húnaþing Vestra og Borgarfjörður eystri. Þetta eru fámenn byggðarlög og uppbygging ferðaþjónustu hið klassíska viðbragð við samdrætti í sjávarútvegi og landbúnaði sem og einhæfni í þjónustu. Rannsóknin hófst 2011 og er áætlað að henni ljúki í lok árs 2014. Rannsóknin mun hafa hagnýtt gildi fyrir atvinnugreinina sem og stjórnvöld og vera mikilvægt innlegg til stefnumótunar í ferðaþjónustu. Rannsóknin tengist vel rannsóknaráætlunum RMF um menningu og ferðaþjónustu sem og hagrænum áhrifum ferðaþjónustu. Þá fellur rannsóknin prýðilega að meginmarkmiðum í framtíðarsýn RMF ekki síst að markmiði tvö um farsæla þróun ferðamála fyrir land og lýð.

Þjóðhagslegur ávinningur ferðaþjónustu

Verkefnið er lagt fram af Hagstofu og Rannsóknamiðstöð ferðamála og tengist uppgjöri á ferðaþjónustu sem atvinnugrein í þeim tilgangi að efla og styrkja ferðaþjónustureikninga. Er hugmyndin sú að auglýsa eftir PhD nema til að greina heildstætt núverandi forsendur og skilgreiningar að baki ferðaþjónustureikningum Hagstofu Íslands, sinna greiningu innviða og rekstrarumhverfis ferðaþjónustu og hvaða möguleikar eru á að tengja uppgjör reikningana við gistiskýrslur, landshlutauppgjör og ólíkar forsendur atvinnugreinarinnar eftir svæðum landsins. Samhliða verður unnið að greiningu virðis- og framleiðslukeðja greinarinnar og margfeldis áhrif hennar. Markmiðið er að renna frekari stoðum undir gerð ferðaþjónustureikninga Hagstofu Íslands en um leið gera upplýsingar ferðaþjónustureikninga aðgengilegri þannig að þær nýttist fyrirtækjum og stjórnvöldum betur til upplýstrar ákvörðunartöku. Með aðgengileik er ekki aðeins átt við að hægt sé að nálgast upplýsingarnar heldur einnig að þær séu á því formi að fólk með sæmilega þekkingu skilji þær.

Þolmörk ferðamennsku

Á árunum 2000 og 2001 voru unnar rannsóknir á þolmörkum ferðamennsku á nokkrum náttúruskoðunarstöðum á landinu. Anna Dóra Sæþórsdóttir, sem lagði fram hugmyndina, var einn þátttakanda í þessum rannsóknum og rannsakaði þann þátt þolmarka sem snýr að upplifun ferðamanna. Hugmynd hennar er að endurtaka þessar rannsóknir nú með það að markmiði að sjá hvernig þessir náttúruskoðunarstaðir hafa breyst á rúmum áratug og hver viðhorf ferðamanna þar eru nú. Fyrir rúmum áratug voru lagðir fyrir spurningalistar og fengust svör frá 3180 gestum. Skoðað var m.a. hvaða ferðamenn sækja staðina heim, hvernig ferðahegðun þeirra er, hvað þeim finnst um fjölda ferðamanna og umfang ferðamennsku, hversu ánægðir þeir eru, hvaða óskir þeir hafa um uppbyggingu og þjónustu og þeir greindir eftir viðhorfskvarðanum (The Purist Scale). Rannsóknirnar leiddu í ljós að viss hættumerki væru uppi um að þolmörkum ferðamanna væri náð eins og t.d. í Landmannalaugum og Skaftafelli þar sem meira en fimmtungur gesta upplifði of mikinn fjölda ferðamanna á stöðunum. Þann rúma áratug sem liðinn er frá því að þessar kannanir voru gerðar hefur fjöldi erlendra ferðamana sem koma til Íslands meira en tvöfaldast og því mikilvægt að vita hvernig ferðamenn upplifa þessa staði nú.

Sustaining Tourism in Protected Areas in Iceland

Megin markmið þessa verkefnis er að hanna ramma utan um sjálfbæra þróun ferðamennsku í og við Vatnajökulsþjóðgarð. Vernduð svæði, og þá sérstaklega þjóðgarðar, eru megin stoð aðdráttarafls landsins. Er verkefnið hugsað fyrir einn PhD nema og væri leitt af háskólasetri HÍ á Hornafirði. Flestir gesta til landsins koma til að upplifa villta og ósnerta náttúru. Með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs 2008, sem er stærsti þjóðgarður Evrópu, var reynt bæði að bregðast við þessu en einnig með það að markmiði að efla byggðir í kringum þjóðgarðinn. Eru væntingar um að þjóðgarðurinn muni auka veltu ferðaþjónustu á svæðinu og þannig efla hagvöxt og byggðaþróun og snúa við stöðnun og fólksfækkun á svæðinu. Verkefnið er tvíþætt og snýr að því að búa til ramma um þátttöku fólks um ákvarðanatöku og eflingu sjálfbærrar ferðaþjónustu í þjóðgörðum og meta svo gagnrýnið árangur af þeirri samvinnu sem verður til.

Ferðaþjónusta í byggðum landsins

Verkefnið gengur fyrst og fremst út á að kanna efnahagsleg áhrif ferðaþjónustunnar með sérstaka áherslu á byggð utan höfuðborgarsvæðisins. Það verði gert með ítarlegri rannsókn og greiningu á Þingeyjarsýslu og öðru svæði til samanburðar annars staðar á landinu (það svæði verður valið í samstarfi við RMF). Er verkefnið unnið af Háskólasetri HÍ á Húsavík. Í stuttu máli snýr verkefnið að:

· Rannsókn á áhrifum/framboði/innviðum ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum

· Samanburðarrannsókn sambærilegs svæðis annars staðar á landinu (sem valið verður síðar).

· Samanburðarrannsókn við höfuðborgarsvæðið einnig.

· Rannsóknin beinist að:

a) ferðamönnum (spurningakannanir), Þjóðerni ferðamanna, „tegund“/hópur ferðafólks, eyðsla ferðafólks., ástæður ferða o.fl.

b) ferðaþjónustuaðilum (fyrirliggjandi gögn/viðtöl/fjárhagslegar uppl.), Tekjur ferðaþjónustunnar á hverju svæði, framboð þjónustuþátta o.fl.

c) Innviðum (fyrirliggjandi gögn/viðtöl), Samgöngur, staðsetning o.fl.