Fjallað um ferðamál á Byggðaráðstefnunni 2018

Eyrún flytur erindi (mynd af vef Byggðastofnunar)
Eyrún flytur erindi (mynd af vef Byggðastofnunar)

Byggðaráðstefnan 2018 var haldin í síðustu viku í Stykkishólmi. RMF tók þátt í ráðstefnunni en yfirskrift hennar var Byggðaþróun og umhverfismál: Hvernig getur blómleg byggð og náttúruvernd farið saman?

Á ráðstefnunni flutti Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingur RMF erindi um áhrif ferðamennsku á samfélag heimamanna og hvað helst brennur á íbúum landsbyggðanna í tengslum við ferðamenn og ferðaþjónustu. Erindið byggði á greiningum RMF á viðhorfum landsmanna til ferðamanna og ferðaþjónustu árin 2014 og 2017. Þá flutti Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir verkefnastjóri hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík erindi um erlenda ferðamenn og áfangastaði landsins. Byggt var á niðurstöðum ferðavenjukönnunar sem RMF og Rannsóknasetur HÍ á Húsavík hafa unnið að í sameiningu á hverju sumri frá 2013.

Um það bil 100 manns sóttu ráðstefnuna og hlýddu á þau 20 erindi og/eða ávörp sem flutt voru. Tilgangur ráðstefnunnar var að tengja saman fræðilega og hagnýta þekkingu á byggðamálum og umhverfismálum með það að markmiði að stuðla að sjálfbærri þróun byggðar um allt land. Byggðastofnun stóð fyrir ráðstefnunni í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Samband íslenskra sveitarfélaga og Stykkishólmsbæ.

Nánar má lesa um Byggðaráðstefnuna 2018 á vef Byggðastofnunar.