Fréttir 2011

Desember

Landið sem rís - þáttur um rannsóknir í ferðamálum

Forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála var í um klukkustundarlöngu spjalli á Rás 1, sunnudagsmorguninn 27. nóvember í þætti Ævars Kjartanssonar og Jóns Orms Halldórssonar, Landið sem rís. Var rætt um stöðu þekkingar í ferðamálum á Íslandi og hvar þyrfti að herða róðurinn í þekkingaruppbyggingu. Viðtalið í heild sinni er hægt að hlusta á hér
http://www.ruv.is/sarpurinn/nr/4610564/

 

Nóvember

Kex Hostel hlaut nýsköpunarverðlaun SAF 2011

Nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar 2011 voru afhent á Hótel Reykjavík Natura í dag. KEX Hostel hlaut verðlaunin að þessu sinni fyrir vandaða hönnun og útfærslu á grunnstoð allrar ferðaþjónustu sem er gistingin, sjá nánar  www.kexhostel.is

Í rökstuðningi dómnefndar segir að eftirfarandi hafi einkum legið til grundvallar ákvörðun dómnefndar:

Rökstuðningur

Í sögunni býr framtíðin og glöggir ferðaþjónustuaðilar nýta sér það til að skapa samkeppnisforskot fyrir sín fyrirtæki. Í síkviku upplifunar- og þjónustuhagkerfi samtímans er oft vandasamt að ráða í hvernig fortíðin speglast í samtímanum og það oft frekar list en einhver vísindi. Það er til dæmis verkefni góðra hönnuða að spá í hvernig rétt er að standa að slíku og tala til fólks svo skiljist. Aðferðafræði hönnunar býr þannig yfir einstökum tækifærum til sköpunar og endursköpunar fyrirtækja í greininni, sem jafnframt getur veitt samkeppnisforskot.

Alls bárust 18 tilnefningar í samkeppni um nýsköpunarverðlaun Samtaka ferðaþjónustunnar fyrir árið 2011. Margar voru um fyrirtæki og nýsköpun sem ekki var komin á markað og því gafst dómnefnd ekki færi á að meta hvort árangur hefði orðið af þeim og þannig gildi nýsköpunarinnar. Er þetta til marks um hugmyndaauðgi og grósku í ört vaxandi grein. Reynsla var komin á aðrar tilnefningar, og öll fyrirtæki sem að baki þeim stóðu bjóða ferðavöru af miklum gæðum og metnað. Átti dómnefnd, sem skipuð er formanni samtakanna, einum félagsmanni og forstöðumanni Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, í nokkrum vandræðum með að ákveða hver stóð fremst meðal jafningja.

Það fyrirtæki sem hlýtur verðlaunin í ár er vissulega nýtt af nálinni, en hefur engu að síður sannað gildi sitt og vinsældir. Kex Hostel hlýtur verðlaunin í ár en þar er um að ræða vandaða útfærslu á grunnstoð allrar ferðaþjónustu sem er gistingin.

Kex Hostel býður gistingu á breiðum grunni og höfðar til dæmigerðra farfugla með 16 manna herbergjum en jafnframt til þeirra sem vilja meira næði og jafnvel munað í tveggja manna hótelherbergjum. Þrátt fyrir þetta breiða framboð vekur sérstaka athygli hvernig eigendur hafa tekið samræmda hönnun rýmisins alla leið. Í hverjum krók og kima er sami andi og blær sem er undirstaða þeirrar upplifunar sem Kex Hostel á að skila. Gæði í ferðaþjónustu byggja á upplifun og samræmi sé milli væntinga þar um og þegar á staðinn er komið. Í öllu kynningarefni og markaðsskilaboðum Kex Hostel kemur skýrt fram hvað þar er á ferðinni og þegar á staðinn er komið undirstrikar heildstæð hönnun og vel útfærð þjónustusamsetning það sem auglýst hefur verið. Þetta samræmi er til fyrirmyndar og undirstrikar gildi góðrar hönnunar til að tryggja gæði í íslenskri ferðaþjónustu. Kex Hostel hefur tekist þar einstaklega vel upp og þannig skapað sér hillu á markaði greinarinnar, sem enginn annar sat og laðar að jafnt erlenda gesti sem heimafólk. 

Stjórn Nýsköpunar- og vöruþróunarsjóðs SAF árið 2011 skipa: 
Árni Gunnarsson, formaður SAF
Edward Huijbens, fulltrúi Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála
Bjarnheiður Hallsdóttir, Katla Travel, skipuð af stjórn SAF

 

Upptökur af örráðstefnu í hátíðarsal HÍ

... hvaða tækifæri eru í norðurljósunum?
Hlutverk gagnrýnna rannsókna í ferðaþjónustu
27. október, kl. 17.00-18.00

Í kjölfar hrunsins hefur ferðaþjónusta á Íslandi fengið mikla athygli. Með það fyrir augum að frumforsendur nýsköpunar og markaðsstarfs í ferðaþjónustu liggja í öflugu og gagnrýnu rannsóknarstarfi lögðu sex aðilar í íslensku háskólasamfélagi til umræðunnar á hvaða grunni betur mætti byggja til framtíðar. 

Edward H. Huijbens setur fundinn, en eftir honum koma Viðar Hreinsson, bréf frá Þorvarði Árnasyni, Edward aftur, Rannveig Ólafsdóttir, bréf frá Guðrúnu Helgadóttur og Friðrik Eysteinsson.

Sjá upptökur af erindum.

Eftir framsögur sköpuðust umræður, sjá upptökur þeirra.

 

Október

Gildi rannsókna í ferðaþjónustu - fundir

Rannsóknamiðstöð ferðamála stendur fyrir einnar klukkustundar örráðstefnu um gildi gagnrýnna rannsókna fyrir vöruþróun og fjárfestingu í ferðaþjónustu í hátíðarsal Háskóla Íslands, fimmtudaginn 27. október kl. 17.00 til 18.00. Dagskrá og nánari upplýsingar má finna hér.

Beint í kjölfarið, daginn eftir klukkan 9.00 (28. október) verður ein málstofa um ferðamál á árlegri félagsvísindaráðstefnu Háskóla Íslands; Þjóðarspegli. Hún er haldin á Háskólatorgi í stofu 103 og stendur til 10.45 og dagskrá hennar með ágripum erinda er að finnahér.

Mikilvægi samgangna fyrir ferðaþjónustu

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) vinnur nú að verkefni sem styrkt er af Norðurslóðaáætlun Evrópusambandsins (NPP) og varðar þróun samgangna í dreifðum byggðum í þágu ferðaþjónustu og heimafólks. Verkefnið er til þriggja ára (2011-2013) og ber heitið Transtourism (sjá: www.transtourism.eu), en að því standa auk RMF sveitarfélög, stofnanir og háskólar á N. Írlandi, Írlandi, Skotlandi og Svíþjóð. Á Íslandi starfar RMF að verkefninu með Þróunarfélagi Austurlands, Markastofu Austurlands, Vegagerðinni og ferðaþjónustu aðilum á Borgarfirði Eystri.

Dagana 25. til og með 27. október verður haldin fundur aðila í verkefninu á Borgarfirði Eystra. Ráðstefnu dagarnir eru tveir. Fyrri dagurinn, þriðjudagurinn 25. október, snýst um námskeiðshald fyrir aðila verkefnisins þar sem rætt verður um einstaka verkþætti og skipulag. Þar munu aðilar verkefnisins kynna framgang þess í sínum heimalöndum, en verkefnið snýst um að þróa lausnir í samgöngum fyrir gesti sem jafnframt nýtast heimafólki og þróa leiðir til að miðla upplýsingum um þessa þjónustu í dreifðum byggðum. Síðari dagurinn, miðvikudagurinn 26. október, er opin öllum og helgaður almennara efni er tengist þeim lausnum sem kynntar verða til sögunnar miða að því að vera sveigjanlegar í takt við eftirspurn og þannig er ætlunin að nýta farsímatækni og netið til að miðla upplýsingum í rauntíma. Að auki er áhersla á að meta umhverfisáhrif samgangnanna til að höfða betur til viðskiptavina sem gera má ráð fyrir að hafi sterka umhverfisvitund. Rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir sem sækja heim dreifðar byggðir á norðurslóðum séu meðvitaðir um nauðsyn umhverfisverndar og því er þessi þáttur tvinnaður inn í þær lausnir sem er verið að þróa.  Síðasta daginn er svo ferð um Austurland í samvinnu við Þróunarfélagið þar sem skoðaðar verða byggðir á svæðinu og hvernig samgögnum um þær er háttað. Ferðina skipulagði Markaðsstofa Austurlands og því verða áfangastaðir ferðafólks einnig skoðaðir.  

Rannsóknir ma. RMF hafa sýnt frammá mikilvægi samgangna fyrir ferðaþjónustu og það hvað þessi grunnsannindi virðast oft vefjast fyrir aðilum í ferðaþjónustu. Þannig er nokkuð um vilja til að efla staðbundið vöru og þjónustu framboð án þess að íhuga hvernig best eða hagkvæmast væri fyrir gesti að komast á staðinn. Þannig má sem dæmi nefna að Dettifoss sem haldið hefur verið á lofti sem perlu Norðurlands, var ekki aðaláfangastaður gesta sem nýttu sér beint flug á svæðið sumrin 2009 og 2010. Hinsvegar sumarið 2011 var þar gjörbreyting með nýjum vegi. Sömu sögu má segja af Siglufirði og byggðum Tröllaskaga, þó kannski hafi ekki borið eins mikið á þeim í kynningarefni til þessa.

Rannsóknamiðstöð ferðamála mun koma á framfæri framvindu og niðurstöðum verkefnisins, en unnið verður með aðilum á Austurlandi og Borgarfirði Eystri að því hvernig þegar hefur verið og betur má nýta í framtíð beint flug á Akureyri og tengsl við aðdráttarafl ferðafólks á svæðinu. 

Hvað vitum við um ferðaþjónustu

Á súpufundi ferðaþjónustuaðila á Norðurlandi, sem haldin var á Hótel KEA á Akureyri þriðjudaginn 11. október, flutti forstöðumaður RMF erindi um stöðu þekkingar í ferðaþjónustu. Erindið dró saman í stuttu máli stöðu þekkingar í greininni á Íslandi almennt og setti í samhengi við nýlega ráðstöfun fjármuna í markaðssetningar átökum á landsvísu. Í erindinu var þessi almenna umræða tengd við vinnu við markaðssetningu Norðurlands og störf flugklasans, sem og væntingar ýmissa aðila á svæðinu til ferðaþjónustu. Markmið erindisins var að sýna fram á hvað er til af upplýsingum og hvernig þær geta nýst aðilum við ákvarðanatöku í ferðamálum.

Sjá texta erindis.

 

Ágúst

Erindi RMF á ATLAS

Forstöðumanni Rannsóknamiðstöðvar ferðamála var boðið að halda opnunarerindið á 20 ára afmælis ráðstefnu ATLAS - The Association for Tourism and Leisure Education í Valmiera í Lettlandi 21. september. Ráðstefnan fjallaði um samspil ferðamennsku og landslags. Fjallaði erindið um nýlega markaðsherferð Íslandsstofu Inspired by Iceland og var myndefni herferðarinnar af íslensku landslagi sett í samhengi við gestrisni og hvað í því fælist að bjóða fólki heim.

Lesa erindi.

 

Gestum fjölgar en tekjur standa í stað

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur nú gefið út yfirlit yfir helstu hagvísa í ferðaþjónustu á Íslandi. Þar eru tekin saman og greind fyrirliggjandi gögn, sem aflað hefur verið af metnaði í hliðarreikningum Hagstofu Íslands, Seðlabanka og hjá Ferðamálastofu. Hinsvegar er frekari greining á þessum gagnasöfnum orðin afar aðkallandi. Tilgangur slíkrar greiningar snýr t.d. að mati á framleiðni tekna af ferðafólki og leiðsögn um hvar beri að herða róðurinn í því tilliti, bæði á landsvísu og einstökum svæðum. Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur lagt fram ítarlega rannsóknaráætlun um það sem greina þarf er kemur að hagrænum áhrifum ferðaþjónustu, en ekki hefur fengist fjárhagslegur stuðningur við þá vinnu.   

Helst er hægt að lesa úr hagvísunum að á síðustu árum hefur gestakomum til landsins fjölgað að meðaltali um 6,6% sem er sambærilegt því meðaltali sem fæst ef horft er til áranna 1960-2010. Frá árinu 1990 hefur vöxtur í tekjum verið 1,2% umfram fjölgun gesta, það er 0,7% meira en ef horft er til tímabilsins 1960-2004, þar sem vöxtur tekna var 0,5% yfir árlegri meðalfjölgun gesta. Hinsvegar virðist sem hver gestur skilji svipað eftir sig milli ára ef horft er til dvalarlengdar og er t.d. þetta misræmi frekara rannsóknarefni.

Nálgast hagvísana í heild sinni.

 

Júlí

Tölfræði um skemmtiferðaskip

Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur nú tekið saman ítarlega tölfræði um komur skemmtiferðaskipa til Íslands árin 2000 til og með 2010. Verða þessar upplýsingar uppfærðar árlega í framhaldinu. Byggt er algerlega á frumheimildum frá hverri höfn sem talin er fram. Eins og sjá má á tölunum hefur farþegafjöldi með skemmtiferðaskipum til landsins nærri þrefaldast á þessu tíu ára tímabili. Er þar horft til farþegafjölda með skipum til Reykjavíkur einungis, þar sem öll skip sem til landsins koma hafa viðkomu þar. Þessi sömu skip koma svo við á öðrum höfnum. Helst eru það Bandaríkjamenn, Bretar og Þjóðverjar sem koma með skipunum þó aðeins sé um önnur þjóðerni.

Sjá myndir og töflur með tölfræðinni. En til að fá frumgögn þarf að hafa samband við Rannsóknamiðstöðina.

 

Júní

Verkefnafundur í TransTourism verkefninu

Dagana 3.-5. maí sl. var haldinn verkefnafundur í norðurslóðaverkefninu TransTourism – Sustainable Transport in Rural Tourism Areas. Verkefnið miðar að því að sýna fram á hvernig samgöngur og upplýsingamiðlun um þær geta verið til hagsbóta fyrir umhverfið og arðbær fyrir ferðaþjónustusvæði í dreifðum byggðum. Gestgjafar fundarins voru Norður-Írar, sem buðu verkefnahópinn velkominn í Limavady, 12 þúsund manna bæ á norðurströnd Norður-Írlands, og í County Down, skammt fyrir utan Belfast. Um skipulagningu fundarins sáu Háskólinn í Ulster og Action Renewables. Þetta var annar verkefnafundur starfshópsins, en í hópnum eru aðilar frá Íslandi, Svíþjóð, Skotlandi, Írlandi og Norður-Írlandi. Á fundinum var farið yfir helstu verkþætti, stöðu þeirra í hverju landi fyrir sig og næstu skref rædd. Auk þess var nýr verkefnastjóri, Thomas Lundin-Larsson hjá Sænsku Vegagerðinni boðinn velkominn til starfa.

Áætlað er að halda næsta verkefnafund í TransTourism-verkefninu á haustdögum og verður hann haldinn á Íslandi.

Hægt er að skoða myndir frá fundinum á http://www.transtourism.eu/ og á Facebook

 

Maí

Icelandair gefur Rannsóknamiðstöð ferðamála bækur

Icelandair hefur af miklum rausnarskap styrk starfsemi Rannsóknamiðstöðvar ferðamála með því að efla bókarkost miðstöðvarinnar. Um er að ræða 11 bækur sem allar snúa að efnahagslegum áhrifum ferðamennsku, hvernig má rannsaka þau og skilja. Bætast þessar bækur við bókasafn miðstöðvarinnar sem er nú eitt stærsta rannsóknabókasafn um ferðamál á Íslandi.

Áherslan í bókakaupunum endurspeglar mikilvægi skilnings á efnahagslegum áhrifum ferðamennsku á þjóðarbúskapinn, sem og hagkerfi einstakra svæða og áfangastaða. Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur lagt fram metnaðarfulla áætlun um rannsóknir á þessu sviði en líkt og þekkt er, er miðstöðin ekki á fjárlögum og hefur úr ákaflega litlum fjármunum að spila. Er það mjög miður því með myndarlegri gjöf Icelandair og þeirri starfsemi sem þróast hefur undanfarin fimm ár hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála eru allar aðstæður fyrir hendi.

Bækurnar sem Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur nú fengið frá Icelandair eru:

  • The Economics of Tourism e. Reece
  • The Economics of Tourism Destinations, Second Edition
  • The Economics of Tourism, 2nd Edition e. Stabler, Papatheodorou, Sinclair
  • Advances in Modern Tourism Research: Economic Perspectives
  • Statistics: The Exploration & Analysis of Data
  • Tourism and Sustainable Economic Development: Macroeconomic Models and Empirical Methods (The Fondazione Eni Enrico Mattei (Feem) Series on Economics, the Environment and Sustainable Development
  • Tourism and the Economy: Understanding the Economics of Tourism
  • Forecasting Tourism Demand
  • Measuring the Economic Importance of the Meetings Industry - Developing a Tourism Satellite Account Extension
  • Enzo Paci Papers on Measuring the Economic Significance of Tourism Vol. 5 (Tourism Satellite Account Implementation Project)
  • Survey Research and Analysis: Applications in Parks, Recreation and Human Dimensions

Starfsfólk RMF þakkar Icelandair heilshugar örlætið  

 

Apríl

Svör RMF um rannsóknaumhverfi í ferðaþjónustu

Töluverð umræða hefur skapast undanfarin misseri um framtíðarsýn og fyrirkomulag ferðaþjónusturannsókna á Íslandi. Ferðamálastofa leitaði til rannsóknaraðila sem að málum koma í dag til að móta framtíðarsýn stofnunarinnar í þessum efnum.

Fyrsti liðurinn í þessari vinnu er að fá yfirsýn um þau verkefni sem verið er að vinna á vegum rannsakenda, svo og viðhorfum þeirra til rannsóknaumhverfisins. Í því skyni setti Ferðamálastofa saman spurningalista en svör við honum verða svo lögð til grundvallar áframhaldandi vinnu.

RMF hefur svarað spurningum Ferðamálastofu og er þau svör að finna hér 

 

Mars

Norðlendingar á flugi í ferðamálum.

 

Verðlaun fyrir lokaverkefni um ferðamál fyrir skólaárið 2010

Rannsóknamiðstöð ferðamála með fulltingi og stuðning Samtaka ferðaþjónustunnar veitir nú í sjötta sinn 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin voru afhent á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) 2011, sem haldin var fimmtudaginn 24. mars í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Dómnefnd, sem skipuð er stjórn og forstöðumanni RMF, hefur metið sex verkefni skólaársins 2010 sem þóttu afar góð og/eða mjög athygliverð, en þau eru:

 

  • Ferðaþjónusta á netinu. Markaðssetningar og stefna íslenskra afþreyingarfyrirtækja í ferðaþjónustu á netinu, BS ritgerð Þórs Bærings Ólafsonar frá viðskiptadeild Háskólans á Akureyri.
  • Vetrarferðamennska á Tröllaskaga. Möguleikar og mikilvægi, BS ritgerð Bryndísar Hrundar Brynjólfsdóttur við líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, ferðamálafræði.
  • How do you like Iceland…now?” Ímynd erlendra ferðamanna á landi og þjóð  í kjölfar bankahrunsins haustið 2008,MS ritgerð Margrétar Sigurjónsdóttur frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
  • Orðræða um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Ferðamennska, sjálfbærni og samfélag, MS ritgerð Arnórs Gunnarssonar frá líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, ferðamálafræði.
  • Þjónustugæði í íslenskri ferðaþjónustu og áhrif mismunandi menningar á þjónustu, MS ritgerð Áslaugar Briem frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.
  • Ímynd Íslands. Raunveruleiki eða ranghugmyndir, MS ritgerð Elísabetar Eydísar Leósdóttur frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurstaða dómnefndar er að verðlaunin í ár hljóti ritgerð Áslaugar Briem Þjónustugæði í íslenskri ferðaþjónustu og áhrif mismunandi menningar á þjónustu, frá viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.         

 

Í umsögn dómnefndar segir:

Í verkefni sínu fjallaði Áslaug niðurstöður tveggja kannanna um þjónustugæði í íslenskri ferðaþjónustu. Annarsvegar gerði hún netkönnun meðal forsvarsmanna ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi og nýtti til þess félagatal Samtaka ferðaþjónustunnar. Hinsvegar tók hún viðtöl við 11 fulltrúa ferðaþjónustunnar innan ýmissa stofnanna hennar, s.s. Ferðamálastofu, Íslandsstofu, SAF og ráðuneytisfólk.

Markmið þessara kannana var leggja mat á stöðu þjónustugæða í íslenskri ferðaþjónustu, þá bæði hvernig fyrirtækin meta frammistöðu sína sjálf og hvernig þeir, sem hafa hvað besta þekkingu á málefnum greinarinnar frá stoðumhverfi hennar, líta á málið. Undirliggjandi var önnur spurning sem einnig var leitað svara við en hún varðaði hvort veitendur þjónustu reyndu með einhverjum hætti að taka tillit til uppruna ferðalanga veita átti þeim þjónustu. Rökstuddi höfundur áherslur sínar þannig að ánægja viðskiptavina skiptir sköpum uppá samkeppnisforskot þjónustufyrirtækja og þannig skipta þjónustugæði höfuðmáli þegar Ísland kemur sér á framfæri sem áfangastaður ferðafólks. Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir að mörg fyrirtæki meti frammistöðu sína sem góða sé úrbóta þörf á mörgum sviðum og heilt yfir sé staðan ekki nógu góð. Helst nefnir höfundur að fyrirtæki þurfi að bæta framreiðslu, starfsþjálfun og þekkingu starfsfólks á þjónustugæðum og að þau þarfnist frekari upplýsingar um sína viðskiptavini með frekari markaðsrannsóknum og könnunum.  

Dómnefndin telur að þetta verkefni sé mikilvægt innlegg í umræðu um rekstrargrundvöll og samkeppni í íslenskri ferðaþjónustu. Mikilvægi þjónustugæða verður seint ofmetið er kemur að ferðaþjónustu og endurspeglar í raun kjarna þess sem greinin snýst um og skilur milli feigs og ófeigs. Væntingar gests og hvernig þeim er mætt hefur afgerandi áhrif á upplifun, sem aftur er undirstaða góðs orðspors og þar með jákvæðrar ímyndar íslenskrar ferðaþjónustu. Gestir til Íslands koma flestir frá Vesturlöndum en undanfarin ár hafa fyrirtæki í greininni í vaxandi mæli horft til annarra menningarsvæða. Til þess að tryggja jákvæða upplifun gesta sem koma úr öðrum menningarsamfélögum þarf að skilja væntingar þeirra sem þaðan koma og þjálfa starfsfólk í þjónustustörfum til að mæta þeim. Mikilvægi samspils upplifunar og þjónustu er algerlega skýrt í niðurstöðum Áslaugar og mikilvægt að bregðast við ákalli hennar um úrbætur á þessum sviðum.

Verkefni Áslaugar er vandað og unnið samviskusamlega með metnað og fagmennsku að leiðarljósi. Ætti hennar vinna að verða öðrum til eftirbreytni og er hún verðugur handhafi lokaverkefnisverðlauna Rannsóknamiðstöðvar ferðamála árið 2011.

Ritgerðina er hægt að skoða á Landsbóksafni eða gegnum Skemmuna (skemman.is)

 

Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Háskólinn á Hólum ásamt Ferðamálastofu og Samtökum ferðaþjónustunnar starfrækja sameiginlega Rannsóknamiðstöð ferðamála, sem er miðstöð rannsókna, fræðslu og samstarfs í greinum sem tengjast ferðamálum.   

 

Ímyndir markaðssvæða - ráðstefna um ímynd Norðurlands

Mánudaginn 28. febrúar var haldin ráðstefna á Akureyri um ímynd Norðurlands. Edward H. Huijbens forstöðumaður RMF var ráðstefnustjóri en meðal frummælenda voru fjármálaráherra, Steingrímur J. Sigfússon, Simon Calder sem skrifar ferðafréttir fyrir The Independent, John Strickland og Kati Liikonen. Kynntu þau upplifun sína af svæðinu og reynslu og báru saman við reynslu af öðrum svæðum í heiminum til að gefa hagsmunaðilum í ferðaþjónustu á Norðurlandi hugmyndir að frekari þróun á sinni ferðavöru. Eftir kynningar var svo vinnufundir þar sem fólk settist á 14 borð, átta saman, og vann sig í gegnum spurningar um hver er ímynd svæðisins, hver viljum við að hún sé og hvernig á að koma henni á framfæri.  

Er ráðstefnan liður í að markaðssetja svæðið í þágu beins millilandaflugs í gegnum Akureyri. RMF hefur nú í tvö sumur haldið úti könnun meðal allra brottfararfarþega með erlent vegabréf sem fara frá Akureyri. Er skýrslan sem tíundar niðurstöður sumarið 2010 nýkomin út og fæst keypt hjá RMF á 50.000. Í henni er rækilega farið yfir hverjir það eru sem nýta sér í dag millilanda áætlunarflug um Akureyrarvöll. Það er sett í samhengi við þróun flugsamgagna og umræðu um hlutverk flugvalla í heiminum og þá sérstaklega Evrópu. Þær breytingar sem eru að verða hjá flugfélögum geta vel orðið tækifæri fyrir beint flug, en margar áskoranir eru á þeirri leið, meðal annars sú hvað selja skuli þeim sem hingað vilja koma. Hver er varan? Var ofangreind ráðstefna liður í þeirri vinnu.  

Ímyndir markaðssvæða - dagskrá

 

Febrúar

Forstöðumaður RMF í stjórn NAPA

Forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Dr. Edward H. Huijbens, hefur verið skipaður í stjórn Norrænu stofnunarinnar á Grænlandi af ráðherra mennta- og menningarmála. Er hann fulltrúi Íslands í stjórn stofnunarinnar sem hefur það hlutverk helst að efla menningartengsl Grænlands og Norðurlandanna (www.napa.gl). Edward tekur við af Nílesi Einarssyni hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar (www.svs.is) og er skipunin til tveggja ára í senn.  

 

Janúar

Áhrif Eyjafjallajökuls á ferðalög fólks á Íslandi

Rannsóknamiðstöð ferðamála gefur nú út skýrslu sem tekur saman niðurstöður könnunar meðal ferðafólks á Íslandi sumarið 2010. Var áherslan í könnuninni á áhrif gossins í Eyjafjallajökli á ferðlög þess um landið og upplifun þeirra af gosinu.

Lesa skýrsluna.

Lokaverkefnisverðlaun Rannsóknamiðstöðvar ferðamála

Auglýst eftir verkefnum

Rannsóknamiðstöð ferðamála veitir árlega 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verða þau nú afhent í sjötta sinn á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), 24. mars nk. Dómnefnd er skipuð stjórn og forstöðumanni RMF.

Til að verkefni komi til greina þarf það að fjalla um ferðamál og ferðaþjónustu á Íslandi. Skal því hafa verið skilað á árinu 2010 og hlotið fyrstu einkunn. Einnig er horft til þess:

    * Að verkefnið sé frumlegt og leiði hugsanlega til möguleika á nýsköpun í ferðaþjónustu á Íslandi.

    * Að verkefnið uppfylli allar þær kröfur sem gerðar eru alþjóðlega til rannsóknarritgerða og sýni fagleg vinnubrögð í hvívetna.

    * Metið er eftir             

                + afmörkun viðfangsefnis

                + skýrleika rannsóknarspurninga

                + Innra samhengi

                + Byggingu texta

                + Hvort ritgerð byggi á sjálfstæðri rannsóknarvinnu

                + Hversu djúpt er kafað í efnið

                + Hversu læsilegt og vel frágengið verkið er

Eintak af lokaverkefnum skulu send Edward H. Huijbens, forstöðumanni Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Borgum v/Norðurslóð, 600 Akureyri.

Nánari upplýsingar eru á www.rmf.is, eða hjá forstöðumanni; edward@unak.is