Fréttir 2013

Febrúar

Erindi forstöðumanns við háskólann í Dalarna (Svíþjóð)

Föstudaginn 15. febrúar var forstöðumanni RMF boðið að halda erindi fyrir nemendur og starfsfólk ferðamálafræði deildar háskólans í Dalarna í Svíþjóð. Samhliða var skíðaferðamennska á svæðinu skoðuð og dvalist á Romme Alpin, skíðasvæðinu.

Hlekk á erindi forstöðumanns má finna hér, en það er flutt á ensku.

 

Janúar

Starf sérfræðings við Rannsóknamiðstöð ferðamála

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) er starfrækt af Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum að Hólum, Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu, með það að markmiði að efla rannsóknir, samstarf og menntun í ferðamálafræði.

Vegna aukinna umsvifa RMF auglýsir miðstöðin nú stöðu sérfræðings sem sinna skal rannsóknaverkefnum um komu skemmtiferðaskipa og vefnotkun ferðaþjónustufyrirtækja auk daglegrar umsýslu RMF með forstöðumanni. Í því felst meðal annars:

  • Vinna við rannsókn um áhrif af komum skemmtiferðaskipa
  • Vinna við rannsókn um vefnotkun ferðaþjónustufyrirtækja

  •  

    Umsjón útgáfumála, þar með talið umbrot og prentun alls útgefins efnis
  • Umsjón gagnagrunna og utanumhald gagna

  •  

    Umsjón og rekstur heimasíðu

Umsækjandi mun hafa starfsaðstöðu við Rannsóknamiðstöð ferðamála í Háskólanum á Akureyri.

Um ráðningu til tveggja ára er að ræða með möguleika á fastráðningu, með þeim fyrirvara þó að eftir eitt ár er möguleiki á að endurskoða ráðningu. Miðað er við að ráðið verði í stöðuna frá 15. febrúar 2013.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Umsækjandi þarf að hafa lokið háskólaprófi á framhaldsstigi frá viðurkenndum háskóla (e. university) á Íslandi eða erlendis.
  • Umsækjandi hafi framúrskarandi færni á notkun tölvubúnaðar til almennra skrifstofustarfa

  •  

    Umsækjandi þarf að hafa gott vald á mæltu og rituðu máli á íslensku og minnst einu erlendu tungumáli, sem og og hæfileika til að setja fram efni á skýran hátt.
  • Umsækjandi þarf að hafa góða skipulagshæfileika, geta unnið sjálfstætt og búa yfir góðri hæfni í mannlegum samskiptum

Umsóknum skal fylgja ítarleg ferilsskrá og grunn persónu upplýsingar.

Laun eru samkvæmt kjarasamningum BHM og fjármálaráðherra.

 

Umsóknarfrestur er til og með 1. febrúar 2013.

Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir. Umsóknir skulu sendar til Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Borgum við Norðurslóð, 600 Akureyri.

Ófullnægjandi umsóknir verða ekki teknar til greina. Stjórn Rannsóknamiðstöðvar ferðamála ræður í starfið og áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.

Nánari upplýsingar gefur Edward Hákon Huijbens, forstöðumaður RMF, í síma 460-8930 eða í netfangi: edward@unak.is.

Tilkynning á Starfatorgi: http://www.starfatorg.is/serfraedistorf/nr/16259

 

Samningur RMF við Cruise Iceland

Þann 18. janúar, síðast liðin, undirrituðu Rannsóknarmiðstöð ferðamála (RMF) og samtökin Cruise Iceland samning um að styrkja rannsókn á áhrifum af komum skemmtiferðaskipa til Íslands. Markmiðið með rannsóknarvinnunni er að greina efnahagsleg og samfélagsleg áhrif af heimsóknum þessara skipa til Íslands.

Á undanförnum árum hefur orðið mikil aukning í komum skemmtiferðaskipa til hinna ýmsu áfangastaða á Íslandi. Á árinu 2012 komu 92.000 gestir með skipum til Reykjavikur og hafa gestir aldrei verið fleiri. Allt bendir til þess að aukningin haldi áfram og því er mikilvægt að fylgjast vel með og greina hin félagslegu og efnahagslegu áhrif sem af komum skipanna stafa. Eitt af því sem er áhugavert að skoða er dreifingu skipanna á hinar ýmsu hafnir landsins og ólík áhrif eftir því. Fyrir 10 árum heimsóttu skemmtiferðaskip aðeins 5 áfangastaði á Íslandi en í dag eru áfangastaðirnir orðnir 15 og því forvitnilegt að rannsaka hver áhrifin eru á innviði og umhverfi á viðkomandi stað.

Hin efnahagslegu áhrif verða meðal annars könnuð með sjálfstæðri rannsókn sem fyrirtækið Peter Wild í Bretlandi gerir um borð í skemmtiferðaskipum sem koma til Íslands. Könnunin fer þannig fram að farþegar fá í hendur spurningar er varða neyslu þeirra og verslun í Íslandsferðinni. Verða þeir einnig beðnir um að meta upplifun sína í ferðinni. Það er Hafnarsamband Íslands sem hefur veg og vanda af þessari rannsókn sem mun nýtast beint inn í rannsókn RMF, en Hafnarsambandið stóð fyrir samskonar úttekt árið 2009.

Samkvæmt samningnum við RMF á verkefnið að standa yfir í eitt ár en mögulegt er að bæta við rannsóknina ef þörf þykir og þá miðað við að verkinu ljúki í september 2014.

Það var Edward H. Huijbens sem undirritaði samninginn fyrir hönd Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála og Ágúst Ágústsson stjórnarformaður Cruise Iceland undirritaði fyrir samtökin.