Rannsókn á viðburðinum Landsmót hestamanna

Mynd © Árni Þórður Jónsson
Mynd © Árni Þórður Jónsson

Fulltrúar Landsmóts hestamanna, Háskólans á Hólum og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála undirrituðu í dag samkomulag um rannsókn á Landsmóti 2018 sem heildstæðum viðburði.

Rannsóknin er unnin í framhaldi af rannsókn Ferðamáldeildar Háskólans á Hólum á Landsmóti hestamanna árið 2016 á Hólum. Markmið hennar er að auka þekkingu á viðburðarhaldi og viðburðarstjórnun, einkum á sviði hestamennsku, styrkja tengslanet rannsakenda á sviði viðburðarstjórnunar, auka þekkingu á Landsmóti hestamanna og efla rannsóknir í viðburðastjórnun við Háskólann á Hólum og Rannsóknarmiðstöð ferðamála.

Landsmót hestamanna ehf. styður við rannsóknarstarfið, s.s. með því að veita rannsóknarhópum frían aðgang að mótsvæðinu í Víðidal og aðgang að gögnum, auk þess að liðka fyrir rannsóknum með öðrum hætti eftir því sem kostur er.

Á meðfylgjandi mynd eru Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður RMF og Ingibjörg Sigurðardóttir lektor við Háskólann á Hólum ásamt Áskeli Heiðari Ásgeirssyni, framkvæmdastjóra Landsmóts en myndin var tekin við undirritun samkomulagsins í Víðidalnum í dag.