Ljósmyndir frá IPTRN

Hópurinn í hvalaskoðun
Hópurinn í hvalaskoðun

Á dögunum fór fram hér á landi, ráðstefna samtaka alþjóðlegra rannsakenda ferðamennsku á heimskautasvæðum (International Polar Tourism Research Network, ITPRN).

Rannsóknamiðstöð ferðamála sá um skipulag og framkvæmd ráðstefnunnar en hún var haldin á Akureyri og á Raufarhöfn. Ráðstefnugestir voru um 50 og fluttu þeir um 40 erindi í 7 málstofum. Rannsóknaráherslur félagsmanna samtakanna eru af fjölbreyttum toga, líkt og sjá má hér á úrdráttum erindanna. 

Auk kynninga og umræðna um niðurstöður rannsókna, leggja samtökin áherslu á samtal við íbúa þeirra svæða sem hýsa ráðstefnur þeirra. Sá háttur var hafður á að þessu sinni með leiðsögn um Raufarhöfn auk þess sem blásið var til samfélagsvinnustofu með heimamönnum. Þar kynntu heimamenn víða að af svæðinu eigin áherslur í ferðamálum, áður en íbúum og hinum erlendu gestum var skipt í vinnuhópa, þar sem velt var upp ýmsum áhersluþáttum, áskorunum og hugmyndum varðandi ferðamennsku í dreifðum byggðum.

Þátttakendur voru sérstaklega ánægðir með móttökur heimamanna á Raufarhöfn og víðar að á svæðinu, en hópurinn fór í vettvangsferð um Melrakkasléttu og á Kópasker, auk þess sem farið var í hvalaskoðun frá Húsavík. Ráðstefnunni lauk á ferðalagi frá Raufarhöfn til Egilsstaða um Vopnafjörð.

Fjöldi skemmtilegra ljósmynda hefur borist frá þátttakendum og hafa margar þeirra verið birtar hér á vefnum

Fjallað var um ráðstefnuna í kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins og þar rætt var við tvo ráðstefnugesti. Sjá má umfjöllunina hér.

Þetta var fimmta ráðstefna samtaka rannsakenda í ferðamennsku á pólsvæðum en þær eru haldnar annað hvert ár. Áður hafa samtökin hist í Abisko, Svíþjóð, Christchurch/Akaroa á Nýja Sjálandi og í Montreal og Nain í Kanada, en þar verður næsta ráðstefna samtakanna haldin í Yukon sumarið 2018.