Rannsóknir í ferðamálum kynntar á Ársfundi Stofnunar rannsóknasetra HÍ

Eyrún J. Bjarnadóttir
Eyrún J. Bjarnadóttir

Ársfundur Stofnunar rannsóknasetra Háskóla Íslands var haldinn í Þjóðminjasafninu þann 30. mars. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti fundinn, sem var þéttsetinn. Sjö fróðleg erindi um viðfangsefni rannsóknasetranna og rannsóknir sem eru unnar við eða í tengslum setrin voru flutt á fundinum. Fjögur fyrstu erindin fjölluðu um ferðaþjónustu en í tveimur þeirra voru kynntar niðurstöður rannsókna sem RMF kom að. Annars vegar niðurstöður ferðavenjukannana og um útgjöld erlendra gesta á Siglufirði, Húsavík, Höfn í Hornafirði og í Mývatnssveit. Lilja Rögnvaldsdóttir verkefnisstjóri við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík vann rannsóknina og kynnti niðurstöðurnar á fundinum. Hins vegar niðurstöður rannsóknar á samfélagslegum áhrifum ferðamennsku og ferðaþjónustu á Siglufirði, Höfn í Hornafirði og í Mývatnssveit. Eyrún Jenný Bjarnadóttir sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála kynnti niðurstöðurnar á fundinum. Bæði rannsóknaverkefnin hlutu fjárframlag frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í gegnum Háskólann á Akureyri árið 2015.

Lilja B. Rögnvaldsdóttir flutti erindi um niðurstöður ferðavenjukannana

    Lilja B. Rögnvaldsdóttir

 

Auk þess flutti Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við HÍ, erindi um samspil ferðaþjónustu og virkjana og Gyða Þórhallsdóttir, doktorsnemi í ferðamálafræði við HÍ, sem sagði frá greiningu á fjölda ferðamanna og hvert þeir leggja leið sína. 

Þrjú erindi tengdust rannsóknum og viðfangsefnum rannsóknasetranna á sviði bókmenntafræði og fornleifafræði. Soffía Auður Birgisdóttir, bókmenntafræðingur við Rannsóknasetur HÍ á Hornafirði sagði frá rannsókn sinni á heimildum um Guðrúnu Sveinbjarnardóttur Egilssonar. Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur við rannsóknasetur HÍ á Vestfjörðum, sagði síðan frá rannsóknum sínum á minjastöðum sem tengjast hvalveiðum Dana, Hollendinga, Norðmanna og fleiri þjóða við Ísland á 19. öld. Að lokum flutti Sigurður Sigursveinsson, framkvæmdastjóri Háskólafélags Suðurlands, erindi sem hann nefndi Þekkingin og byggðirnar.


Nánari upplýsingar um ársfundinn og starfsemi Rannsóknasetra Háskóla Íslands má finna hér. Upptöku frá fundinum er einnig að finna hér.