Talning ferðamanna

Í maí 2018 var gefin út skýrslan: Dreifing ferðamanna um landið – Talningar ferðamanna á áfangastöðum út árið 2017. Í skýrslunni er greint frá niðurstöðum talninga á ferðamönnum á 21 áfangastað. Verkefnið á rætur að rekja til verkefnis sem styrkt var af Ferðamálastofu árið 2014.

Árið 2015 styrkti atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið í gegnum Rannsóknamiðstöð ferðamála verkefnið og þá voru settir upp teljarar á Norðurlandi.

Sumarið 2016 fékk verkefnið áfram styrk frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og þá bættust við teljarar á Reykjanesi, Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi. Áframhaldandi styrkur fékkst frá ráðuneytinu fyrir árið 2017 og þá var bætt við teljurum við Reynisfjöru, Seljalandsfoss, Reykjadal í Hveragerði og á sunnanverðum Kili.

Verkefnið byggist á aðferðafræði við að meta fjölda ferðamanna á áfangastöðum með því að telja bifreiðar. Þegar bifreiðateljarar eru notaðir til að finna hversu margir gestir koma á áfangastað þarf að vita hlutfallið á milli einkabíla og rúta sem og meðalfjölda í hvorri tegund bifreiða. Það var áður gert handvirkt en sumarið 2016 voru gerðar tilraunir með að finna hlutfallið sjálfvirkt, það er með umferðargreini með aðstoð frá Vegagerðinni. Tilraunin reyndist afskaplega vel og mikil og góð gögn fengust. Vegna styrksins frá atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu árið 2017 gat verkefnið fest kaup á fyrrnefndum umferðargreini. Hann mun auðvelda kvörðun á áfangastöðunum til muna.

Í skýrslunni Dreifing ferðamanna um landið – Talningar ferðamanna á áfangastöðum út árið 2017 er greint frá því hvernig ferðamenn dreifast um landið, í febrúar, ágúst og október 2017 og hvernig dreifingin hefur breyst síðustu ár. Áfangastaðir í Mývatnssveit eru skoðaðir sérstaklega og bornir saman við talningar Vegagerðarinnar á þjóðveginum. Fjöldi ferðafólks í  tveimur fjarlægum sveitum frá höfuðborgarsvæðinu er síðan borinn saman, það er í Mývatnssveit og Skaftafellssýslum.  Í lok skýrslunnar eru settar fram tölulegar niðurstöður fyrir 21 áfangastað.

Bifreiðar eru taldar mun víðar á landinu. Vatnajökulsþjóðgarður telur á um 50 áfangastöðum í þjóðgarðinum, bæði á hálendi og láglendi. Einnig er talið að Fjallabaki nyrðra og syðra. Það er því talið á um 100 áfangastöðum og ferðaleiðum á landinu. Talningunum er stýrt af Rögnvaldi Ólafssyni. Gyða Þórhallsdóttir hefur unnið með Rögnvaldi að talningunum síðan árið 2014. Vatnajökulsþjóðgarður og landverðir Umhverfisstofnunar hafa aðstoðað þau við aflestur á fjarlægum stöðum.

Með niðurstöðum þessara talninga er mögulegt að móta aðgerðir varðandi skipulag ferðaþjónustunnar á landsvísu, uppbyggingu innviða og þjónustu á hverjum áfangastað.