Vel sótt málstofa um íslenska ferðaþjónustu

Gunnþóra Ólafsdóttir (mynd: EJB)
Gunnþóra Ólafsdóttir (mynd: EJB)

Fjölmenni var á málstofu stöðu ferðaþjónustunnar í Hörpu í gær. Yfirskrift málstofunnar var Hver er lykillinn að sjálfbærri þróun ferðamannastaða á Íslandi? Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Seðlabankinn og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið stóðu fyrir viðburðinum.

Dr. Gunnþóra Ólafsdóttir sérfræðingur hjá RMF flutti annað tveggja framsöguerinda á málstofunni. Erindi hennar fjallaði um hvernig vísindaleg þekking á eðli náttúrutengdrar ferðamennsku geti hjálpað við að vernda auðlindina sem íslensk ferðaþjónusta byggir á. Í hinu erindinu fjallaði Dr. Julien Daubanes, lektor við Kaupmannahafnarháskóla, um sjálfbærni, stýringu og vernd út frá hagfræðilegu sjónarhorni.

Að loknum framsöguerindum fóru fram pallborðsumræður. Ásamt Gunnþóru og Dr. Daubanes tóku þar þátt Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Douglas Sutherland hagfræðingur OECD og Jane Stacey, ferðamálasérfræðingur OECD. Ráðherra ferðamála, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ávarpaði málstofuna í upphafi og Mari Kiviniemi, aðstoðarframkvæmdastjóri OECD flutti lokaávarp.

Tilefni málstofunnar var ný skýrsla OECD, Efnahags- og framfarastofnunarinnar, um íslensk efnahagsmál sem birt var fyrr um daginn. Í skýrslunni var sérstök áhersla á stöðu ferðaþjónustunnar á Íslandi. Fram kom að ferðaþjónustan valdi þrýstingi á innviði, samfélag og náttúru og að vaxtarverkir hafi komið upp samhliða aðlögun þjóðarbúsins að auknu umfangi. 

Skýrsla OECD á vefsíðu Stjórnarráðsins

Frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins um skýrslu OECD


Frá pallborðsumræðum. (fv) Ólöf Ýrr Atladóttir, Jane Stacey, Gunnþóra Ólafsdóttir, Arnór Sighvatsson,
Douglas Sutherland og Julien Daubanes (mynd: EJB)