Verkefni - Viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf heimamanna

Meginmarkmið rannsóknarinnar er að kanna áhrif ferðaþjónustu og ferðamanna á íbúa á Íslandi. Ferðamennska og ferðaþjónusta geta markað djúp spor í samfélög heimamanna en töluverður munur getur verið á því í hverju samfélagi hvaða áhrifaþættir vega mest. Í rannsókninni eru könnuð viðhorf heimamanna sem búa við nærveru ferðamanna og skoðað er hvaða áhrif ferðamennska hefur á lífsgæði þeirra.

Rannsóknin er liður í því að kanna viðhorf landsmanna til ferðaþjónustu með reglubundnum hætti; annars vegar með könnunum á landsvísu á þriggja ára fresti og hins vegar með könnunum á einstaka svæðum þau ár sem landskönnun er ekki framkvæmd.

  

Viðhorf heimamanna til ferðaþjónustu og ferðamanna: Kannanir í einstökum samfélögum

Á árunum 2015 og 2016 voru gerðar tvær tilviksrannsóknir innan einstakra samfélagi á Íslandi. Árið 2015 framkvæmdi ferðamáladeild Háskólans á Hólum tilviksrannsókn sem náði til fjögurra þéttbýlisstaða: Ísafjarðar, Húsavíkur, Hellu og 101 Reykjavíkur. Tekin voru viðtöl við íbúa en auk þess voru gerðar vettvangsathuganir í opinberu rými sem samnýtt er af ferðamönnum og íbúum hvers staðar. Rannsóknin var fjármögnuð af Ferðamálastofu. Hér má lesa skýrslu Háskólans á Hólum um niðurstöður rannsóknarinnar. 

Árið 2016 framkvæmdi RMF svo aðra rannsókn sem náði til þriggja þéttbýlisstaða: Siglufjarðar, Mývatnssveitar og Hafnar í Hornafirði. Í gagnaöflun var notast við blandaðar rannsóknaraðferðir, annars vegar með hálfopnum viðtölum við íbúa og með spurningakönnun meðal íbúa. Rannsóknin var fjármögnuð af ANR. Verkefninu lauk í lok árs 2016 með útgáfu tveggja skýrslna.

Haustið 2018 var þráðurinn tekinn upp að nýju með rannsókn á fjórum stöðum: Egilsstöðum, Stykkishólmi, Húsavík og Reykjanesbæ. Unnið er með blandaðar rannsóknaraðferðir líkt og gert var árið 2016. Rannsóknin er fjármögnuð af ANR. Áætlað er að fyrstu niðurstöður liggi fyrir fyrrihluta árs 2019. Lokaskýrsla verður gefin út af Ferðamálastofu vorið 2019.   

  

Viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu: Kannanir á landsvísu

Tvær kannanir hafa verið gerðar á landsvísu á viðhorfum Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu. Sú fyrri var unnin á vegum Ferðamálastofu árið 2014 í samstarfi við RMF og Háskólann á Hólum. Markmiðið var að kanna viðhorf Íslendinga til ferðaþjónustu á Íslandi. Sú síðari var gerð síðla árs 2017. Markmiðið var að kanna viðhorf landsmanna til ferðaþjónustu og ferðamanna á Íslandi og hvort einhverjar breytingar á viðhorfum landsmanna hafi átt sér stað frá síðustu könnun á landsvísu 2014. Öllum gögnum var skilað til Vöruhúss gagna - Mælaborðs ferðaþjónustunnar. Rannsóknin var fjármögnuð af ANR.


Sérstakar samantektir með niðurstöðum könnunarinnar voru unnar fyrir hvert markaðssvæði landshlutanna og birtust snemma árs 2018:

Viðhorf íbúa á Austurlandi til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á höfuðborgarsvæðinu til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Norðurlandi til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Reykjanesi til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Suðurlandi til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Vestfjörðum til ferðamanna og ferðaþjónustu

Viðhorf íbúa á Vesturlandi til ferðamanna og ferðaþjónustu

 

Síðar á árinu 2018 birtist skýrsla með frekari greiningum á gögnunum. Í fyrsta lagi var gerð samanburðargreining á niðurstöðum kannananna 2014 og 2017 til að meta hvaða breytingar hafi orðið á viðhorfi landsmanna milli kannana. Í öðru lagi var gerð þáttagreining á gögnunum sem safnað var í könnuninni 2017. Á grundvelli þáttagreiningarinnar var gerð línuleg aðhvarfsgreining til að meta tengsl ýmissa bakgrunnsþátta og viðhorfa landsmanna til ferðamanna. Í þriðja lagi var gerð greining á svörum landsmanna við opnum spurningum sem voru í könnuninni 2017. Tilgangur opnu spurninganna var að finna hvar jákvæðar og neikvæðar áherslur liggja sem gætu varpað ljósi á hvers megi vænta ef ferðaþjónustan hefur neikvæð áhrif á líf heimamamanna. 

 

Hér má lesa skýrslu RMF um greiningu niðurstaðna landskönnunar ársins 2014 og skýrslu Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands með niðurstöðum könnunarinnar.

 

Umsjón: Eyrún Jenný Bjarnadóttir [ejb@hi.is]