Rannsóknasýn

Unnið er að fjölbreyttum rannsóknum innan Rannsóknamiðstöðvar ferðamála. Tveir þriðju af rekstrafé stofnunarinnar kemur úr samkeppnissjóðum og því stýrast rannsóknir nokkuð af því hvaða styrkir vinnast hverju sinni. Er hægt að glöggva sig betur á þeim gegnum krækjur á Ársskýrslur RMF.

Í samvinnu við rannsakendur í ferðamálum við háskóla landsins voru árið 2012 settar fram rannsóknaáætlanir fram til ársloka 2020. Áætlanirnar gilda um þrjú svið rannsókna á ferðamennsku á Íslandi; hagræn áhrif ferðamennsku, menningu og ferðaþjónustu og ferðamennsku og umhverfi. Heildarsýn og skipulag í rannsóknum fyrir atvinnugreinina liggur ekki fyrir og í reynd starfar óverulegur fjöldi ólíkra einstaklinga innan ýmissa fræðasviða og stofnanna að rannsóknum sem snerta ferðamennsku. Áætlanirnar þrjár hafa það markmið að samhæfa rannsóknir og skapa yfirsýn með því að byggja upp net samvinnu og samstarfs milli hinna ólíku fræðasviða og stofnanna.

 

Hagræn áhrif ferðaþjónustu

Höfuðmarkmið þessarar áætlunar er að fá gleggri heildarsýn á áhrif gestakoma á mismunandi þætti stoðkerfis atvinnugreinarinnar og um leið stuðla að heildar skilgreiningum á atvinnugreininni, sem gagnast gætu við frekari hagtölugreiningar á landsvísu. Eitt helsta verkefni stjórnvalda er að stilla saman arðsemi, byggðastefnu og náttúruvernd þegar kemur að áhrifum ferðamanna á landið og er skilningur á samspili innviða greinarinnar frumforsenda þess að slíkt verkefni takist. Einnig mun þetta verkefni hjálpa greininni sjálfri að taka réttar ákvarðanir til að bæta afkomu og að sama skapi að hjálpa fjárfestum og lánveitendum að þjóna greininni betur. Öflugar rannsóknir er lúta að hagrænum áhrifum ferðaþjónustu eru forsemda stefnumótunar, áætlanagerðar og markaðssetningar í greininni. Sömuleiðis hefur vantað öfluga ráðgjöf við aðila í ferðaþjónustu. Forsenda slíkrar starfsemi byggir á greinargóðum upplýsingum og rannsóknum, m.ö.o. þekkingu á greininni.

Rannsóknaráætlun um hagræn áhrif ferðaþjónustu

 

Menning og ferðaþjónusta

Þessi áætlun tekur til fjölbreyttra rannsókna er lúta að menningu og ferðaþjónustu á Íslandi. Markmið hennar er að skilja samspil samfélags, menningar og ferðaþjónustu t.a.m. hvaða áhrif uppbygging menningartengdrar ferðaþjónustu hefur á menningararfinn og sjálfsmynd Íslendinga en jafnframt hvað áhrif gestakomur hafa á íbúa landsins.

Rannsóknaráætlun um menningu og ferðaþjónustu

 

Ferðamennska og umhverfi

Þessi áætlun tekur til fjölbreyttra rannsókna sem lúta að ferðamennsku og umhverfi á Íslandi. Markmið hennar er að efla þekkingu á hvernig hátta skal nýtingu umhverfis á sjálfbæran hátt í þágu ferðamennsku. Rannsóknir verða efldar með því að skýra og afmarka rannsóknarsviðið, skapa farveg fyrir samstarf ólíkra fræðasviða gegnum stofnun tengslanets einstaklinga og stofnanna og samþætta rannsóknir. Með eflingu rannsókna verða fræðin treyst í sessi og nýtt til styrkingar megin auðlindar atvinnugreinarinnar, forsendur fagmennsku treystar, gæðaviðmið þróuð og menntun efld.

Rannsóknaráætlun um ferðamennsku og umhverfi