Akstursferðamennska og ferðamannaleiðir í dreifbýli
Rannsóknin Akstursferðamennska og ferðamannaleiðir í dreifbýli beindist að áhrifum skilgreindra ferðamannaleiða og ástands innviða á umferð ferðamanna um dreifbýli. Rannsóknin hverfðist um hugtökin akstursferðamennska, ferðamannaleiðir og leiðahefð. Fræðileg forsenda rannsóknarinnar byggði á mikilvægi samgöngumannvirkja í uppbyggingu ferðaþjónustu og leiðahefð jafnt umferðar ferðamanna sem opinberra fjárfestinga í samgöngumálum. Rannsóknin beinis jafnframt að hlut markaðssettra ferðamannaleiða í aukinni dreifingu ferðamanna og gerð og ástandi vegakerfis í vali ferðamanna á ferðaleiðum.
Við framkvæmd rannsóknar var beitt blönduðum rannsóknaraðferðum, það er spurningakönnun meðal ferðamanna, örviðtölum við heimafólk og ferðamenn auk vettvangsferðum rannsakanda og innihaldsgreiningar á myndbirtingum á samfélagsmiðlum.
Tilvik rannsóknar voru tvö svæði á Norðurstrandaleið sem er fyrsta markaðssetta ferðamannaleið landsins. Rannsóknarsvæðin voru tvö dreifbýlissvæði leiðarinnar, Vatnsnes á norðvesturenda hennar og Melrakkaslétta á henni norðaustanverðri. Rannsóknin var unnin sumarið 2024 með styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.
Helstu niðurstöður sýna að Norðurstrandarleið er enn sem komið er ekki vel þekkt meðal ferðamanna sem fara um dreifbýli Norðurlands. Þá sýna niðurstöður einnig að þrátt fyrir að ferðamenn telji malarvegi svæðanna þokkalega til aksturs þá telja þeir einnig að af þeim stafi hætta varðandi umferðaröryggi og þægindi á ferðalögum. Jafnframt sýna niðurstöður að þrátt fyrir að margt sé líkt með svæðunum tvemur er einnig fjölmargt sem aðgreinir þau. Um það má lesa nánar í niðurstöðuskýrslu rannsóknar sem er aðgengileg hér.
Verkefnisstjóri var Þórný Barðadóttir [thorny @ rmf.is]