Lokaverkefnisverðlaun SAF og RMF

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin eru afhent á aðalfundi SAF.

Tvenns konar verðlaun eru veitt:

  • Ein verðlaun fyrir lokaverkefni úr framhaldsnámi til MS-gráðu eða MA-gráðu við háskóla hér á landi. Ætlast er til þess að lokaverkefnið sé metið til að minnsta kosti 30 ECTS-eininga. Verðlaunaféð er 200.000 krónur.
  • Ein verðlaun fyrir lokaverkefni úr grunnnámi til BS-gráðu eða BA-gráðu við háskóla hér á landi. Verðlaunaféð er 100.000 krónur.

Kallað er eftir tilnefningum í janúar ár hvert fyrir verkefni sem voru metin til prófgráðu á árinu á undan.  RMF kallar eftir tilnefningum frá leiðbeinendum nemenda við íslenska háskóla. Forsenda tilnefninga er að lokaverkefnin uppfylli ítrustu kröfur sem gerðar eru til rannsóknarritgerða á viðkomandi námsstigi og séu faglega unnin í hvívetna. Tilnefnd lokaverkefni skulu berast til Eyrúnar Jennýjar Bjarnadóttur á netfangið ejb@rmf.is.

Verðlaunahafar eru valdir af þriggja manna dómnefnd sem skipuð er einum fulltrúa úr stjórn RMF, einum frá SAF auk starfsmanns RMF. Mat dómnefndar byggist á eftirfarandi þáttum:

  • Framlagi verkefnisins til nýsköpunar um ferðamál og ferðaþjónustu á Íslandi
  • Skýrleika markmiða og rannsóknarspurninga
  • Dýpt efnistöku
  • Gæða rannsóknavinnu og framsetningu niðurstaðna
  • Uppbyggingu, málfari og frágangi verkefnis

Tekið skal fram að leiðbeinendur nemenda sem tilnefndir eru til verðlaunanna mega ekki sitja í dómnefnd. Dómnefnd áskilur sér rétt til að hafna innsendum tilnefningum uppfylli verkefni ekki ofangreinda þætti.