Gildi og nýting minjastaða


Rannsókn á gildi og nýtingu minjastaða. Markmið rannsóknarinnar er að rannsaka hvernig heimamenn sjá og meta minjastaði í sínu nánasta umhverfi. Um er að ræða tilviksrannsókn þar sem Hofstaðir í Mývatnssveit verða nýttir sem dæmi, en svæðið sem rannsóknin nær yfir er Skútustaðahreppur og Þingeyjarsveit.

Í verkefninu verður lögð áhersla á að öðlast innsýn í samfélagslegt gildi minjastaða fyrir heimamenn og kanna hvort, og þá hvernig, minjastaðir geti gagnast íbúum svæðisins, ásamt þeim mögulegu ávinningum sem hlotist hafa af þeim fornleifarannsóknum sem hafa farið fram á svæðinu í gegnum árin. Að auki er vonast til þess að með þessu verkefni megi þróa aðferðafræði til svipaðrar greiningar á öðrum svæðum á Íslandi.

Rannsóknin skiptist í þrjá hluta; viðtöl við hagaðila, rýnihópsviðtal við heimamenn og spurningalista sem sendur verður út á netinu til íbúa svæðisins.

Verkefnið er unnið að beiðni Minjastofnun Íslands og er styrkt af evrópska styrktarsjóðnum ESPON. Gagnasöfnun fer fram sumarið 2021 og verkefninu lýkur með skýrslu með niðurstöðum rannsóknarinnar í árslok 2021.