Kínverskir ferðamenn á Íslandi

Kínverskum ferðamönnum hefur fjölgað mikið á Íslandi á undanförnum árum og hefur þessi markhópur burði til að verða mikilvægur hlekkur í íslenskri ferðaþjónustu í framtíðinni. Kínverskir ferðamenn koma frá nokkuð frábrugðnari menningarheimi en þeir markhópar sem hafa verið hvað mest áberandi hér á landi, þ.e. Þjóðverjar, Frakkar, Bretar, Bandaríkjamenn og aðrir Norðurlandabúar og því mikilvægt að kanna hvernig þeir upplifa og nálgast Ísland sem áfangastað.

Markmiðið með þessari rannsókn var að öðlast innsýn í upplifun þeirra sem eru að þjónusta kínverska ferðamenn hér á landi. Hvað einkennir þarfir og áhuga þessa markhóps? Hvaða áskoranir og tækifæri liggja í að þjónusta kínverska ferðamenn sem sækja Ísland heim?

Tólf viðtöl voru tekin við leiðsögumenn, hótelstarfsmenn og aðra innan ferðaþjónustunnar sem þjónusta og eiga í samskiptum við kínverska ferðamenn í sínum störfum. Niðurstöður viðtalanna voru nýttar í skrif á bókarkafla fyrir bók um asíska ferðamenn á norðurslóðum sem RMF var boðið að taka þátt í. Young-Sook Lee (The Arctic University of Norway) ritstýrir bókinni og er áætlað að bókin komi út seinnipart árs 2021. Undirbúningur fyrir verkefnið hófst haustið 2019 en gagnaöflun fór fram sumarið 2020.

Auk bókarkaflans kom út skýrsla á íslensku vorið 2021 með niðurstöðum rannsóknarinnar.
Hægt er að lesa skýrsluna hér: Kínverskir ferðamenn á Íslandi: Upplifun og reynsla íslenskra ferðaþjónustuaðila.

Verkefnisstjóri var Vera Vilhjálmsdóttir (verav@rmf.is) en ásamt henni komu þær Guðrún Þóra Gunnarsdóttir (RMF) og Rosemary Black (Charles Sturt University) að kaflaskrifum.