WeLead: Leiðtogahæfni kvenna í ferðaþjónustu

Rannsóknamiðstöð ferðamála er þátttakandi í Erasmus+ verkefninu Women Leadership in tourism, leisure & hospitality (We Lead), sem fjallar um leiðtogahæfni kvenna í ferðaþjónustu. Verkefnið er styrkt af evrópsku styrkjaáætluninni Erasmus+ og er til tveggja ára (2022-2024). RMF leiðir verkefnið fyrir hönd Háskólans á Akureyri en Kennslumiðstöð HA kemur einnig að verkefninu. Aðrir samstarfsaðilar koma frá fimm fyrirtækjum og menntastofnunum á Íslandi, Danmörku, Írlandi og Spáni.  

Markmið verkefnisins er að efla leiðtogahæfni kvenna í ferðaþjónustu, ekki síst þegar kemur að brýnum úrlausnum og viðbrögðum við loftslagsbreytingum.  Oft hallar á hlut kvenna í störfum þeirra innan ferðaþjónustunnar þegar litið er til þátta eins og launa, vinnuaðstæðna og  möguleikum á stöðuhækkun. Rannsóknir benda til þess að færri starfstækifæri, launamisrétti, lítið starfsöryggi og ójöfn verkaskipting milli karla og kvenna hefur neikvæð áhrif á það hvernig litið er á hlut kvenna á vinnumarkaði. 

WE LEAD verkefnið miðar að því að skapa starfsumhverfi innan ferðaþjónustunnar sem stuðlar að jafnræði, jöfnuði og bregst við þörfum samfélagsins, ekki síst þegar kemur að helstu áskorun samtímans sem loftslagsbreytingar af mannavöldum eru. Það er vaxandi samstaða meðal hagaðila innan ferðaþjónustunnar að seigla greinarinnar til framtíðar muni ráðast af getu hennar til að aðlaga sig að lágu kolefnisspori og draga úr losun gróðurhúsaefna um 50% fyrir árið 2030. Í WE LEAD verður lögð áhersla á að vinna að því að auka sýnileika, forystuhæfni og áhrifamátt kvenna í ferðaþjónustu þegar kemur að því að skapa sjálfbærari framtíð greinarinnar. 

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður og Vera Vilhjálmsdóttir, sérfræðingur taka þátt í verkefninu fyrir hönd RMF en þær Auðbjörg Björnsdóttir, forstöðumaður og Bryndís Böðvarsdóttir, verkefnastjóri taka þátt fyrir hönd Kennslumiðstöðvar.  

Nánari upplýsingar um verkefnið og framvindu þess er að finna á heimasíðu We Lead