Kjör og aðstæður erlends vinnuafls í ferðaþjónustu

Á kaffihúsi. ©Íris Hrund Halldórsdóttir

Rannsókninni er ætlað að fá dýpri innsýn í kjör og aðstæður erlends stafsfólks í greinum tengdum ferðaþjónustu á Íslandi, en hægt er að fá í aðgengilegum talnagögnum. Það verður gert með viðtölum við erlent starfsfólk í ferðaþjónustu og starfsmenn félaga og stofnana, sem eru í samskiptum við erlenda starfsmenn. Nánar tiltekið er sjónum beint að staðbundnum verkalýðsfélögum og stofnunum sem veita upplýsingar til innflytjenda um réttindi og skyldur í íslensku samfélagi.

Markmiðið er annars vegar að fá yfirsýn yfir hvað má betur fara í starfsumhverfi erlends starfsfólks í ferðaþjónustu með viðtölum við fulltrúa félaga og stofnana, og hins vegar að fá dýpri skilning á reynslu fólks sem kemur til starfa hér á landi, í mislangan tíma.

Í þessari rannsókn er stefnt að því að bera saman áskoranir og aðstæður, eftir svæðum, sem eru mismunandi eftir árstíðasveiflu og ásókn ferðamanna. Styrkur fékkst úr Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar, sem er í vörslu ASÍ, til að afla gagna fyrir rannsóknina sumarið 2018. Þá voru tekin viðtöl á Vestfjörðum, Suðurlandi og Reykjanesi. Styrkur fékkst úr Þróunarsjóði innflytjendamála, 2019, til að rannsaka sama efni á Austurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi.

Bráðabirgðaniðurstöður hafa verið kynntar á ráðstefnum og í fyrirlestrum, og í pípunum er skýrsla með helstu niðurstöðum sem áætlað er að komi út byrjun árs 2020 og bókarkafli í bók um atvinnumál í ferðaþjónustu á Norðurlöndunum. Bókin mun heita Tourism Employment in Nordic Countries – Trends, Practices and Opportunities og verður hún gefin út af Palgrave Macmillan.  Áætlað er að hún komi út seinnipart árs 2020.

Mynd: Íris Hrund Halldórsdóttir

Umsjónaraðilar þessarar rannsóknar eru hluti af rannsóknarhópi um vinnuafl í ferðaþjónustu, sem leiddur er af Rannsóknamiðstöð ferðamála. Er þessi rannsókn hugsuð sem forrannsókn til að fá innsýn inn á ferðaþjónustutengdann atvinnumarkað hér á landi. Auk íslenskra fræðimanna í rannsóknarhópnum eru rannsakendur frá öðrum Norðurlöndum og Bretlandi.

Hvati rannsóknar í íslensku samhengi er mikill vöxtur í störfum tengdum ferðaþjónustu á síðustu árum. Helmingur þeirra starfa sem skapast hafa í hagkerfinu á tímabilinu 2011-2107, má rekja beint eða óbeint til ferðaþjónustunnar (Íslandsbanki, 2018). Í ágúst 2011 störfuðu 15.700 í einkennandi greinum ferðaþjónustu og í ágúst 2017 var fjöldinn kominn í 30.700. Rúmlega sextíu prósent starfanna eru á veitinga- og gististöðum (Hagstofa Ísland, 2018). Að mati Hagdeildar ASÍ eru líkur á því að vinnumarkaðsrannsóknir Hagstofu Íslands nái ekki vel til starfsfólks sem ráðið er tímabundið hér á landi og aðeins lítill hluti erlendra starfsmanna svara könnunum á kjörum á vegum stéttarfélaga (ASÍ, 2018).

Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur um hlutfall erlendra starfsmanna innan ákveðinna atvinnugreina eða starfsstétta (Vinnumálastofnun, 2018), en gögn um félagsmenn stéttarfélagsins Eflingar sýna að 43% þeirra sem starfa í hótel og veitingaþjónustu eru erlendir ríkisborgarar (ASÍ, hagdeild, mars 2018). Skortur er á rannsóknum á aðstæðum og kjörum erlends starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi, en rannsóknir í Noregi sýna að aðbúnaður og kjör séu oft verri en í öðrum atvinnugreinum og útlendingar og ungt fólk eru í sérstaklega viðkæmri stöðu (Kristján Bragason, 2017). Hérlendis beinast áhyggjur m.a. af fjölda tímabundinna ráðninga í ferðaþjónustu (ASÍ, mars 2018), sem skýrist m.a. af árstíðasveiflu í fjölda ferðamanna sem er misjöfn eftir svæðum (sjá t.d. Íslandsbanki, apríl 2018).

Starfsánægja í ferðaþjónustu eitt af forgangsmálum í núverandi ferðamálastefnu (Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, 2015). Aukinn fjölbreytileiki vinnuaflsins hefur leitt til nýrra áskoranna fyrir stjórnendur fyrirtækja í ferðaþjónustu og stjórnun/stýringu greinarinnar. Aukin þekking á hvað betur má fara í kjörum og aðbúnaði starfsfólks greinarinnar, sem í auknum mæli eru erlendir ríkisborgarar, ætti að vera hagur bæði forsvarsmanna ferðaþjónustu og samtaka launafólks.

Umsjón: Íris Hrund Halldórsdóttir, sérfræðingur hjá RMF [irish@rmf.is] og Magnfríður Júlíusdóttir Lektor í mannvistarlandfræði hjá Háskóla Íslands.