Saga

Hér að neðan verður farið yfir helstu viðburði í starfi Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, áður Ferðamálasetur Íslands. Til að glöggva sig nánar á viðburðum hvers árs er vísað í Ársskýrslur RMF

Rannsóknamiðstöð ferðamála má rekja aftur til ársins 1997, þegar ákveðið var að stofna til stöðu rannsakanda við skrifstofu Ferðamálaráðs á Akureyri. Ákvörðunin var byggð á greiningu sem unnin hafði verið af Rannís árið 1995 um rannsóknaþörf í greininni og var Björn M. Sigurjónsson ráðinn í stöðuna.

Skömmu síðar var ákveðið að leggja þessa stöðu niður og færa undir hatt háskólanna. Haustið 1999 var ákveðið að hýsa slíka stöðu sem samvinnuverkefni Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, byggt á samstarfsamning þeirra í millum. Var verkefnið titlað Ferðamálasetur Íslands og formlega sett á fót sumarið 2000 með sérstöku samkomulagi milli Háskóla Íslands (HÍ) og Háskólans á Akureyri (HA). HÍ og HA gerðu einnig með sér óformlegt samkomulag um að hinn fyrrnefndi mundi leggja til 2.000.000 kr. En hinn síðarnefndi 1.000.000 kr. auk þess að leggja til aðstöðu og skrifstofutæki við HA. Í samkomulaginu var kveðið á um að stjórn skyldi skipuð tveimur fulltrúum frá hvorum samningsaðila, en að auki yrði Ferðamálaráði (síðar Ferðamálastofu), Samtökum ferðaþjónustunnar (SAF) og Háskólanum á Hólum- Hólaskóla, boðið að skipa einn fulltrúa hver. Formennska hefur verið með höndum HÍ. Í töflu 1 má sjá lista yfir stjórnarfólk frá stofnun.

 

Tafla 1: Stjórnarfólk við Ferðamálasetur Íslands síðar Rannsóknamiðstöð ferðamála frá stofnun 1999.

Tafla 1

Á grunni samkomulags HÍ og HA var Arnar Már Ólafsson ráðin forstöðumaður vorið árið 2000. Honum til fulltingis var ráðin sérfræðingur í ágúst 2001, Kristrún Anna Konráðsdóttir, en vegna fjárskorts lét hún af störfum sex mánuðum síðar. Um það leyti var ráðin til setursins Kristín Sóley Björnsdóttir en sinnti hún beint ráðgjöf við sk. Gásaverkefni Minjasafns Akureyrar. Til að styðja við reksturinn var gert samkomulag um aðkomu Ferðamálaráðs (nú Ferðamálastofu) með fjárframlagi að upphæð 2.000.000 kr. frá og með desember 2003. Einnig var ákveðið að Menntamálaráðuneytið mundi leggja setrinu til 5.000.000 kr. til rannsókna á menningartengdri ferðaþjónustu gegnum HA (tafla 2). Á grunni þessa aukna fjár og samning við ferðamálaklasa Vaxtarsamning Eyjafjarðar var Bergþóra Aradóttir ráðin til liðs við setrið, snemma árs 2004. Sinnti hún starfi ferðamálaklasa Vaxtarsamnings Eyjafjarðar 2004-2007.

Haustið 2004 sagði Arnar starfi sínu lausu og við því tók Helgi Gestsson lektor við HA í hlutastarfi (25%). Dró smám saman úr umsvifum í framhaldinu og Kristín Sóley Björnsdóttir sagði starfi sínu lausu frá 1. júní 2005, en henni hafði boðist að stýra Gásaverkefni Minjasafns Akureyrar. Ferðamálaráð sagði upp sínum samningi frá og með janúar 2006 og Bergþóra Aradóttir hætti haustið 2006.   

Þá um haustið 2006 tók við nýr forstöðumaður Dr. Edward H. Huijbens.

Leitast var við að fylla starf Bergþóru strax til að halda samstarfi við Vaxtarsamning Eyjafjarðar og þann ferðamálaklasa sem var orðin til þar. Einnig var mikilvægt að viðhalda samning við Ferðamálaráð. Margrét Víkingsdóttir var ráðin og tókst að viðhalda samning við Ferðamálaráð. Margrét sinnti fyrst og fremst störfum í þágu ferðamálaklasa Vaxtarsamnings Eyjafjarðar. Hún hætti vorið eftir þegar ljóst var að klasinn væri lagður niður með breytingum á Vaxtarsamning. Í hennar stað var ráðin Eyrún Jenný Bjarnadóttir vorið 2008 og um svipað leyti gert samkomulag um aðkomu Hólaskóla að Ferðamálasetri. Ráðin var starfsmaður í hlutastarf við Ferðamálasetur með rannsóknaskyldu gagnvart setri og kennsluskyldu gagnvart Hólum. Hólaskóli lagði nú 750.000 kr. inn í rekstur Ferðamálaseturs (tafla 2). Á sama tíma var gengið frá sambærilegri ráðningu til eins árs í senn við HÍ. Við Hólaskóla var ráðin Dr. Martin G. Gren og við HÍ Dr. Rannveig Ólafsdóttir. Að auki var ráðin verkefnisstjóri í hálft starf á skrifstofu Ferðamálaseturs á Akureyri til að vera Eyrúnu og Edward innan handar.

 

Tafla 2: Framlög á ári til RMF.

Aðili

Framlag

Framlag frá 2012

Háskóli Íslands

2.000.000 kr.

3.000.000 kr.

Háskólinn á Akureyri

1.000.000 kr.

1.000.000 kr.

 - menntamálaráðuneyti

5.000.000 kr.

5.000.000 kr.

 - aðstaða

1.600.000 kr.

1.600.000 kr.

Háskólinn á Hólum

750.000 kr.

750.000 kr.

Ferðamálastofa

2.000.000 kr.

2.000.000 kr.

Menntamálaráðuneyti

 

30.000.000 (í 3 ár)

Icelandair Group

 

5.000.000 (í 3 ár)

Samtals

12.350.000

48.350.000

 

Á aðalfundi snemma árs 2008 var nafni breytt í Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) og starfslið 3,5 stöðugildi eins og að ofan er talið. Þessi umsvif báru sig ekki og árið 2008 var gert upp með miklum halla en væntingar höfðu staðið um að hið opinbera mundi koma að eflingu rannsókna í ferðamálum og ráðherra ferðamála, þá Össur Skarphéðinsson, kynnt tillögur þar að lútandi. Sagt var upp starfsmanni við Hóla frá hausti 2009 og starfsmanni við HÍ frá áramótum 2010/11.

Nokkuð bar til tíðinda við lok ársins 2011 en þá kom fram tillaga á fjárlögum um að RMF fengi 30 milljónir í þrjú ár. Í greinargerð með fjárlögum ársins 2012 kemur fram að framlag til Háskólans á Akureyri skuli þannig hækkað um 30 milljónir, gagngert til „að styrkja rekstrargrundvöll Rannsóknamiðstöðvar ferðamála“. Er framlagið ætlað „til þess að fastráða og fjölga starfsmönnum þannig að uppbygging þekkingar á þessu sviði verði á varanlegri og traustari grundvelli.“ (Greinagerð með fjárlögum 2012, bls. 260-261). Þetta aukna framlag kemur gegnum Mennta- og menningarmálaráðuneytið (MMR) og tekið er fram að önnur framlög haldist óbreytt. Árið 2012 hófst því með nokkrum væntingum um meiri umsvif og getu miðstöðvarinnar til að sinna þeim verkefnum sem nauðsynleg eru til að efla þekkingu á íslenskri ferðaþjónustu. Með þessari samþykkt er áfanga náð í baráttu RMF fyrir að komast á fjárlög sem staðið hefur sleitulaust frá hausti 2006. Samhliða þessu ákvað Háskóli Íslands að auka sitt framlag úr tveimur í þrjár milljónir á ári (tafla 2).

Í ljósi þeirra möguleika sem aukin framlög gefa hóf stjórn RMF undirbúning að ráðstöfun strax í upphafi árs 2012. Dagana 10. og 11. febrúar var boðað til stefnumótunar fundar á Hótel Natura í Reykjavík. Á grunni þeirrar vinnu var ákveðið að auglýsa eftir verkefnum innan háskólanna og í júní 2012 var ákvörðun tekin af stjórn að nota nýtt framlag MMR til að styrkja þau verkefni sem talin eru í töflu 3. Samhliða þessum verkefnum gerði Icelandair Group samning við HA um að styrkja RMF um 5 milljónir á ári í 3 ár til rannsókna á flugi og ferðaþjónustu í júní 2012. Einnig náðust samningar um verkefni fyrir Cruise Iceland um rýni á ferðaþjónustu skemmtiferðaskipa við Íslandsstrendur.

 

Tafla 3: Verkefni sem styrkt voru af stjórn RMF í júní 2012.

Árið 2013 einkenndist af frágangi mannaráðninga vegna styrkja og því að verkefni sem styrkt voru með framlögum á fjárlögum ársins 2012 voru að komast af stað. Þessi verkefni verða unnin fram á mitt ár 2015 innan ramma hinnar nýju fjárveitingar sem er til loka árs 2014. Auk þessara verkefna má telja til viðburða að fyrsta bókin um ferðamál á Íslandi kom út haustið 2013 en byggir hún mikið á vinnu þeirra sem að RMF hafa komið til þessa.

Í júlí 2014 var stofnasamkomulag HÍ og HA endurgert og nú með formlegri aðkomu Háskólans á Hólum. Samkomulagið felur ekki í sér neinar breytingar á stöðu RMF, en miðstöðin er enn hýst hjá HA sem samstarfsverkefni skólanna og snertiflötur er kemur að rannsóknum í ferðamálum á Íslandi.

Tafla 4 tekur saman helstu tölulegu staðreyndir um starfsemi RMF til loka árs 2013.

 

Tafla 4: Umsvif RMF

Tafla 4 saga rmf