Verkefni í vinnslu

Rannsóknarverkefni RMF

  

Samfélagsleg áhrif ferðaþjónustu

Tilviksrannsókn: Höfn - Mývatnssveit - Siglufjörður.

Rannsóknin felur í sér greiningu á því hvaða áhrif hinn hraði vöxtur ferðaþjónustunnar, samhliða lengra ferðamannatímabili, hefur á samfélag heimamanna, menningu og daglegt líf.

Ljóst þykir að ferðaþjónusta getur leitt til breytinga á samfélögum og samsetningu þeirra. Slíkar breytingar geta verið af félagslegum og menningarlegum toga, sem og hagrænum og umhverfislegum. Auk þess þarf að huga að jákvæðum og neikvæðum áhrifum ferðaþjónustu á íbúa og menningu þeirra þar sem uppbygging í ferðaþjónustu þarf að vera í sátt við samfélag og heimamenn.

Verkefni styrkt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.

 

Heimamenn: spurningakönnunar á landsvísu

Undirbúningur spurningalista fyrir endurtekna könnun á landsvísu.

 

Umfang og áhrif ferðaþjónustu í byggðum landsins

Í verkefninu Umfang og áhrif ferðaþjónustu í byggðum landsins er megin áhersla lögð á eftirspurnarhlið atvinnugreinarinnar og greiningu gesta til svæðisins. Leitast er við að finna svör við því hverjir það eru sem koma og hvað dregur þá til svæðisins. Einnig eftir hverju þeir sækjast og hvað þeir skilja eftir. Svör við slíkum spurningum eru mikilvægar í þeim uppbyggingarfasa sem atvinnugreinin er í víða um land auk þess sem þau gagnast við gerð stefnumótandi stjórnunaráætlana fyrir ferðaþjónustu í hverjum landshluta. Spurningalisti var lagður fyrir erlenda ferðamenn á sex stöðum landsins, Seyðisfirði, Egilsstöðum, Húsavík, Mývatnssveit, Stykkishólmi og Ísafirði á sumarið 2016.

Verkefnið er unnið í samstarfi Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri og Þekkingarnets Þingeyinga. Verkefnið er styrkt af Stjórnstöð ferðamála, en er framhald verkefnis sem hófst í júní 2015, þá styrkt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.

 

Markhópagreining fyrir íslenska ferðaþjónustu

Ítarleg markhópagreining á erlendum mörkuðum íslenskrar ferðaþjónustu. Unnið verður að líkani til að afla gagna frá markaðssvæðum landsins. Með því verður lagður grunnur að viðmiðum til að skilgreina markhópa út frá lífsstíl og félagshópum. Einnig verða lögð drög að grunnflokkun gesta í markhópa fyrir miðaða markaðssetningu, ímyndaruppbyggingu og vöruþróun áfangastaða og þjónustu, enda hefur slík gagnaöflun til rannsókna forspárgildi.

Verkefni styrkt af Stjórnstöð ferðamála, er framhald verkefnis sem hófst í júní 2015 og var styrkt af atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti.  

 

  

Talningar ferðamanna: dreifing eftir landssvæðum

Talning ökutækja sem aka inná fjölfarna áfangastaði víða um land. Meðalfjöldi ferðamanna í hverju ökutæki er fundinn til þess að hægt sé að meta dreifingu ferðamanna um landið, dreifingu ferðamanna á milli áfangastaða og árstíðasveiflu í dreifingu ferðamanna.
Með niðurstöðum er mögulegt að móta aðgerðir varðandi skipulag ferðaþjónustunnar á landsvísu, uppbyggingu innviða og þjónustu á hverjum áfangastað. 

Áfangi styrktur af Stjórnstöð ferðamála; hluti stærra verkefnis.

 

Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu

 - Húsavík, Mývatnssveit, Höfn og Siglufjörður

Meginmarkmið verkefnisins er greining á efnahagslegum áhrifum ferðaþjónustu í byggðum landsins. Unnið verður með hliðsjón af alþjóðlegri forskrift ferðaþjónustureikninga. Rekstrarlegar ástæður og misjafnt aðgengi að upplýsingum um ferðaþjónustukaup er misjafnt eftir landshlutum. Opinberar hagtölur getur því í einhverjum tilfellum þurft að aðlaga að staðháttum.

Rannsóknin tekur til fjögurra byggðakjarna: Húsavíkur, Mývatnssveitar, Siglufjarðar og Hafnar í Hornafirði. Staðirnir hafa allir gengið í gegnum hræringar í atvinnulífi undanfarin ár. Samdráttur hefur orðið í grunnatvinnuvegunum, sér í lagi sjávarútvegi, á sama tíma og miklar framtíðarvæntingar eru bundnar við ferðaþjónustu.

Rannsóknin byggir á verkefni sem unnið hefur verið í Þingeyjarsýslum frá árinu 2012. Það verkefni snýr að aðlögun alþjóðlegra aðferða við gerð ferðaþjónustureikninga að afmörkuðum svæðum landsins í þeim tilgangi að greina efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu á svæðinu.

 

Tourism, Wellbeing and Ecosystem Services (TObeWELL)

Tourism, Wellbeing and Ecosystem Services er samvinnuverkefni 29 Evrópulanda sem styrkt er af rammaáætlun Evrópusambandsins (COST) og er leitt af háskólanum í Exeter.

Verkefnið snýst um að þætta saman hugmyndir um þjónustu vistkerfa með áherslu á lífkerfi, við aðra þætti mannlegrar tilvistar; menningu, heilsu og vellíðan gegnum ferðamennsku. Verkefnið miðar að því að tengja saman rannsóknir á vellíðan sem byggja á þjónustu vistkerfa og notkun þeirra gegnum ferðamennsku, útivist og afþreyingu. Til grundvallar verkefninu liggur að skapa ný samvinnu rannsóknarverkefni um hvernig ferðamennska getur bætt heilsu og vellíðan með samlífi við auðlindir, náttúru og sjálfbæra nýtingu vistkerfa, um leið og reynt verður að leggja mat á virði slíkrar nýtingar. Þetta mun nást með samstarfi ólíkra rannsóknastofnana um alla Evrópu sem starfa munu saman á grundvelli fjögurra vinnuhópa. 

  1. Fjallar fræðilega um samband ferðamennsku, vellíðunar og þjónustu vistkerfa og leitast við að smíða hugtakaramma um það.
  2. Mun fjalla um aðferðafræðilegar áskoranir við að kynna sér þetta samband.
  3. Skoðar samhengi öldrunar, vellíðunar og þjónustu vistkerfa.
  4. Skoðar stefnumótun og hvernig niðurstöður hinna hópanna geta upplýst mótun heilbrigðisstefnu.

Dr. Edward H. Huijbens sérfræðingur sinnir þessu verkefni og stýrir innan þess samræmingu vísindaferða eða sk. short term scientific missions, einnig  sinnir Edward stýrihópi verkefnisins.  Áætluð lok COST verkefnisins eru haustið 2016.

Rannsakandi: Dr. Edward H. Huijbens sérfræðingur RMF.

 

Slow adventure tourism og SAINT 2015

Verkefnið er unnið í samvinnu við stofnanir í Noregi og Skotlandi og er styrkt af Norræna Atlantssamstarfinu (NORA). RMF er í samvinnu við Háskólasetur Háskóla Íslands á Hornafirði um innlenda hluta verkefnisins. Markmiðið er að bera kennsl á vörur og þjónustu sem snúast um „yndis-ævintýri“ (e. slow adventure) á Norðurslóðum á starfsvæði NORA og hvað það er sem einkennir þessar ferðir. Með því að búa til skilgreiningu fyrirtækja sem bjóða yndisævintýraferðir og bera kennsl á fyrirtæki sem bjóða slíkar ferðir og hvata þeirra voru gerðar leiðbeiningar um hvernig má skipuleggja ferðaþjónustu með þessum hætti sem gæti þannig verið frekar í takt við umhverfi og náttúru. Verkefnið hófst haustið 2013 og lýkur vorið 2014. Fyrir liggur lokaskýrsla um verkefnið og er það íslenskur hluti hennar sem skilgreinir yndis ævintýri í íslensku samhengi. Einnig var unnin umsókn uppúr verkefninu í Northern Periphery and Arctic Programme (NPP) ESB sem send var inn í lok árs 2014. Hún ber titilinn: SAINT - Slow Adventure In Northern Territories     

Rannsakandi: Dr. Edward H. Huijbens sérfræðingur RMF.

 

Norðurslóðasamstarf

RMF er virkur þátttakandi í norðurslóðasamstarfi fræðafólks í ferðamálum með þátttöku í International Polar Tourism Research Network (IPTRN). Þetta hefur skapað fótfestu til þátttöku í mótun norðurslóðaáherslna Háskólans á Akureyri, en þar eru fjölmörg verkefni og ýmsir samstarfsmöguleikar í mótun. Frá upphafi árs 2014 hefur RMF séð um heimasíðu IPTRN og mun einnig skipuleggja fimmtu ráðstefnu hópsins haustið 2016 á Raufahöfn.

Dr. Edward H. Huijbens sérfræðingur RMF sinnir samstarfinu.