Ferðaþjónusta í samhengi
RMF fékk á dögunum styrk frá NORA til að vinna að verkefni er varðar mótun sjálfbærrar ferðaþjónustustefnu á völdum áfangastöðum í Færeyjum, á Íslandi og Í Noregi. RMF mun leiða verkefnið, en aðrir samstarfsaðilar eru Robert Gordon háskólinn á Orkneyjum, Háskólinn á Hólum, Háskólinn í Færeyjum, Háskólinn í Molde, Noregi og Samgöngu- og hagfræðistofnun Noregs.
Verkefnið hefur það að markmiði að styðja við stefnumótun fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu með sérstakri áherslu á að samræma stefnu við gildi og þarfir heimamanna. Notast verður við PlaSE matsrammann fyrir staðbundna stefnumótun (Place-based Strategy Evaluation Framework) sem var þróaður í doktorsverkefni Dr. Alona Roitershtein frá Robert Gordon háskólanum.
Verkefnið er unnið í anda nærandi ferðaþjónustu (regenerative tourism) þar sem lögð er áhersla á ferðaþjónustuverkefni sem unnin eru í samræmi við þarfir samfélagsins og stuðla að staðbundinni þróun.
Rannsóknarsvæði íslenska hluta verkefnisins er Dalabyggð. En Dalabyggð er landbúnaðarhérað með ört vaxandi ferðaþjónustu og fjölmörg tækifæri til frekari þróunar. Önnur rannsóknasvæði verkefnisins eru Suðuroy og Åndalsnes.
Ása Marta Sveinsdóttir, asamarta@rmf.is, og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, gudrunthora@rmf.is, hafa umsjón með verkefninu fyrir hönd RMF.
Laufey Haraldsdóttir, lektor við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, og Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, koma einnig að verkefninu.
Verkefnið hófst 1. september og lýkur 31. ágúst 2026.

Norðurslóð 2 (E-hús-206)
600 Akureyri