Kjör og aðstæður erlends vinnuafls í ferðaþjónustu

Á kaffihúsi. ©Íris Hrund Halldórsdóttir

Markmiðið með þessari rannsókn var annars vegar að fá dýpri innsýn yfir hvað má betur fara í starfsumhverfi erlends starfsfólks í ferðaþjónustu í gegnum þekkingu stéttarfélaga, úr vinnustaðaeftirliti og aðstoð við fólk úr þessum hópi, og hins vegar að fá dýpri skilning á reynslu fólks sem kemur til starfa hér á landi, í mislangan tíma.

Styrkur fékkst úr Minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar, sem er í vörslu ASÍ, til að afla gagna fyrir rannsóknina sumarið 2018. Þá voru tekin viðtöl á Vestfjörðum, Suðurlandi og Reykjanesi. Styrkur fékkst úr Þróunarsjóði innflytjendamála, 2019, til að rannsaka sama efni á Austurlandi, Norðurlandi og Vesturlandi.

Hvati rannsóknarinnar í íslensku samhengi var mikill vöxtur í störfum tengdum ferðaþjónustu. Helmingur þeirra starfa sem sköpuðust í hagkerfinu á tímabilinu 2011-2107, mátti rekja beint eða óbeint til ferðaþjónustunnar.

Bráðabirgðaniðurstöður hafa verið kynntar á ráðstefnum og í fyrirlestrum. Seinnipart árs 2020 kemur svo út bókarkafli úr þessari rannsókn, í bók um atvinnumál í ferðaþjónustu á Norðurlöndunum. Bókin mun heita Tourism Employment in Nordic Countries – Trends, Practices and Opportunities og verður hún gefin út af Palgrave Macmillan.

Verkefninu lauk með útgáfu skýrslu með helstu niðurstöðum í júlí 2020. Skýrsluna má nálgast hér.

Umsjónaraðilar þessarar rannsóknar eru hluti af rannsóknarhópi um vinnuafl í ferðaþjónustu, sem leiddur er af Rannsóknamiðstöð ferðamála. Var þessi rannsókn hugsuð sem forrannsókn til að fá innsýn inn á ferðaþjónustutengdann atvinnumarkað hér á landi. Auk íslenskra fræðimanna í rannsóknarhópnum eru rannsakendur frá öðrum Norðurlöndum og Bretlandi.

Umsjón: Íris Hrund Halldórsdóttir, RMF (irish@rmf.is) og Magnfríður Júlíusdottir, HÍ (mj@hi.is).