Rannsóknarhópur um félagsleg áhrif ferðamennsku

© Eyrún Jenný BjarnadóttirSkilningur á áhrifum vaxandi ferðamennsku á samfélag og líf þeirra sem byggja áfangastaðinn er lykilatriði í skipulagningu ferðaþjónustunnar og áætlunum sem stuðla að sjálfbærni. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikilvægi þess að íbúar á áfangastöðum ferðamanna séu hafðir með í ráðum þegar kemur að uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu og að velvilji þeirra sé mikilvægur liður í sjálfbærri þróun greinarinnar. Uppbygging í ferðamennsku og mótun áfangastaða ætti að hafa efnahagslegan, umhverfislegan og samfélagslegan ávinning, stuðla að uppbyggingu samfélaga og betri lífsgæðum íbúa. Því er mikilvægt að fylgst sé með viðhorfum íbúa og skynjun þeirra á áhrifum ferðamennsku í samfélagi þeirra.

Rannsóknarhópurinn á rætur að rekja til ársins 2014 þegar fyrstu kannanir á viðhorfum Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu voru gerðar í samstarfi Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Háskólans á Hólum og Ferðamálastofu. Markmið hópsins eru að efla þekkingu og skilning á félagslegum áhrifum ferðamennsku á breiðum grunni.

 

Þátttakendur hópsins eru:
Guðrún Helgdóttir, prófessor í ferðamálafræði, Háskólanum í Suð-austur Noregi
Georgette Leah Burns, dósent við Griffith Háskóla í Brisbane, Ástralíu
Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála

Eyrún Jenný Bjarnadóttir [ejb@rmf.is] er starfsmaður hópsins.

 

Atburðaskrá

• Árið 2023 kom út bók um félagslega sjálfbærni í aðfangakeðjum á Norðurslóðum. Ritstjórar bókarinnar eru dr. Antonina Tsvetkova frá Háskólanum í Molde og dr. Konstantin Timoshenko frá Háskólanum í Suðaustur Noregi. Einn kafli bókarinnar fjallar um félagslega sjálfbærni og aðfangakeðju ferðaþjónustunnar út frá sjónarhóli íbúa. Höfundar kaflans eru Guðrún Helgadóttir, Doris Effah-Kesse, Eyrún Jenný Bjarnadóttir, Georgette Leah Burns og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir. Kaflinn er afrakstur samstarfs rannsóknarhópsins og byggir á niðurstöðum rannsókna sem RMF hefur unnið fyrir Ferðamálastofu um viðhorf íbúa til ferðafólks og ferðaþjónustu á Íslandi. Hægt er að nálgast bókina á heimasíðu útgefanda: Routledge.


• Árið 2019 kom út grein félagslega sjálfbærni ferðamennsku á Íslandi. Greinin byggir á rannsókn sem gerð var 2015 um skilning íbúar á Ísafirði, 101 Reykjavík, Hellu og Húsavík lögðu í ferðamennsku og ferðaþjónustu í sínu nánasta umhverfi. Greinin er eftir Guðrúnu Helgadóttur, Önnu Vilborgu Einarsdóttur, Georgette Leah Burns, Guðrúnu Þóru Gunnarsdóttur og Jóhönnu Maríu Elenu Matthíasdóttur. Greinin var birt í tímaritinu Scandinavian Journal of Hospitality and Tourism og má finna hana hér: Social sustainability of tourism in Iceland: A qualitative inquiry (tandfonline.com)