Könnun á meðal erlendra ferðamanna á einstökum svæðum

Í ár verður haldið áfram staðbundnum könnunum á ferðavenjum og neyslu erlendra ferðamanna hérlendis, en samningur þess efnis var í gær undirritaður af RMF og Ferðamálastofu.  

Frá árinu 2013 hefur könnunin verið framkvæmd á alls 14 stöðum víðsvegar um land. Markmið verkefnisins er að safna upplýsingum um ferðahegðun og útgjaldamynstur ferðamanna á ákveðnum svæðum yfir sumartímann.

Með endurteknum könnunum á tilteknum svæðum, fæst einnig tímalína upplýsinga sem gerir mögulegt að fylgjast með þróun ferðahegðunar, neyslu og upplifunar ferðamanna á milli ára og með því fást mikilvægar vísbendingar um þróun ferðamannastaða.

Meðal þess sem spurt er um er búsetuland, dvalarlengd, gistimáti og ferðafélagar auk þess sem útgjaldamynstur ferðamanna er skoðað eftir stöðum. Þátttakendur eru beðnir að tilgreina meginástæðu þess að tiltekinn áfangastaður hafi orðið fyrir valinu og eins gefst þeim gefst kostur á að koma með athugasemdir varðandi dvöl þeirra og upplifun meðan á dvölinni stendur.

Meðfylgjandi mynd sýnir hvar og hvenær könnunin hefur verið framkvæmd til þessa og þá staði sem verða til rannsóknar í ár en þeir eru í stafrófsröð Akureyri, Borgarnes, Höfn og Mývatnssveit.

Ferðavenjurkönnun - staðsetningar og ártöl fyrirlagna

Verkefnið er einn hluti reglubundinnar gagnaöflunar stjórnvalda sem nýtist til grundvallar ákvarðanatöku og markmiðasetningu í atvinnugreininni.

Skoða má niðurstöður kannana áranna 2013 – 2015 með því að smella hér

Niðurstöður áranna 2016 og 2017 má sjá hér

 

Verið er að leggja lokahönd á samantektir niðurstaðna kannana sumarsins 2018.