Landsmenn almennt sáttir við ferðamenn og ferðaþjónustu

Um níu af hverjum tíu landsmönnum telja ferðamenn auka fjölbreytileika mannlífsins og að ferðaþjónustan sé efnahagslega mikilvæg í heimabyggð. Þetta kemur fram í nýrri könnun á viðhorfum landsmanna til ferðaþjónustu og ferðafólks á Íslandi sem Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur unnið.


Í könnuninni var spurt um ýmis atriði sem varpa ljósi á viðhorf landsmanna. Ljóst þykir að ferðamennska getur haft áhrif á nær alla þætti samfélagsins en samfélagið er ein af lykilstoðum sjálfbærrar ferðamennsku. Nokkrar af spurningum könnunarinnar voru fyrst lagðar fyrir landsmenn í könnun árið 2014. Eitt af því sem spurt var um var viðhorf til fjölda ferðamanna. Niðurstöðurnar árið 2014 gáfu til kynna að meirihluti Íslendinga taldi fjölda ferðamanna á Íslandi á sumrin hæfilegan en um fjórðungur landsmanna telur þó fjöldann vera of mikinn. Skiptari skoðanir eru meðal landsmanna um fjölda ferðamanna á veturna þar sem um það bil helmingur telur fjöldann of lítinn og hinn helmingurinn telur fjöldann hæfilegan. Nýja könnunin gefur til kynna að litlar breytingar hafa átt sér stað milli ára í viðhorfum landsmanna til fjölda ferðamanna.

Jákvæð viðhorf heimamanna er einn þeirra mælikvarða sem var skilgreindur í Vegvísi ferðaþjónustunnar árið 2015. Almennt virðist ríkja ágæt sátt milli landsmanna og ferðaþjónustunnar. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að í flestum landshlutum sjái landsmenn ferðaþjónustuna sem blómstrandi atvinnugrein sem efli byggð og færi samfélaginu miklar tekjur. Auk þess auki ferðaþjónustan fjölbreytni í mannlífi, atvinnuháttum og þjónustu á svæðinu vegna fjöldans sem heimamenn njóta almennt góðs af. Vísbendingar um neikvæða áhrifaþætti koma þó einnig fram. Þannig er nokkuð stór hópur landsmanna hræddari nú en áður að keyra á vegum úti og margir kannast við að forðast nú að sækja heim ákveðna fjölsótta ferðamannastaði. Einnig virðist svo vera að landsmenn telji verðlagningu ferðaþjónustufyrirtækja ekki sanngjarna.


Könnunin, sem fjármögnuð var af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, var lögð fyrir á tímabilinu september til nóvember 2017 og er hún liður í vöktun á viðhorfum heimamanna til ferðmanna og ferðaþjónustu. Hringt var í rúmlega 5.500 manns af öllu landinu og svöruðu 2.370 könnuninni. Svarhlutfall var 43%. Lykilniðurstöður könnunarinnar hafa verið birtar í Mælaborði ferðaþjónustunnar en þær er hægt að skoða niður á landsvæði fyrir árið 2017. Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur birt sjö svæðisskýrslur um viðhorf heimamanna, eina fyrir hvert landssvæði auk höfuðborgarsvæðis en heildarskýrsla er væntanleg síðar á þessu ári.