Nýtt Erasmus+ verkefni: T-CRISIS-NAV

Rannsóknamiðstöð ferðamála mun taka þátt í Erasmus + verkefninu: Navigating SMEs in the tourism sector through crisis (T-CRISIS-NAV). Verkefninu er stýrt af University of Highlands and Islands í Skotlandi. Verkefnið er unnið í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir á Írlandi, Þýskalandi, Danmörku ásamt Íslandi og mun það standa yfir í þrjú ár (2020-2023). 

Sú kreppa sem fylgir COVID-19 hefur haft miklar afleiðingar fyrir ferðaþjónustu í Evrópu sem og á alþjóðavísu. Í slíkum aðstæðum er mikilvægt að stjórnendur og starfsmenn í ferðaþjónustu fái viðeigandi þjálfun til þess að geta siglt í gegnum þann ólgusjó sem fylgir kreppu sem þessari.

Verkefninu er ætlað að þróa námsskrá og námsefni til að gera ólíkum menntastofnunum kleift að bjóða uppá fræðslu og þjálfun fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki og frumkvöðla framtíðar, í ferðaþjónustunni, til þess að öðlast þá færni, tæki og tól sem nauðsynleg eru til að takast á við kreppu á áhrifaríkan hátt.

Hlutverk Rannsóknamiðstöðvar ferðamála í þessu verkefni er fjölbreytt en sem fulltrúi háskólastofnana sér RMF um gæðamat á því efni sem verkefninu er ætlað að búa til.