RMF vinnur rannsókn um viðhorf heimamanna á tímum Covid-19

(mynd: ejb)
(mynd: ejb)

Ferðamálastofa hefur gert samning við RMF um framkvæmd rannsóknar á viðhorfum heimamanna til ferðafólks og ferðaþjónustu á tímum COVID-19. Markmiðið með rannsókninni er að greina hvaða áhrif fækkun erlendra ferðamanna vegna faraldursins hefur haft á viðhorf heimamanna til ferðaþjónustu.

Um tilviksrannsókn er að ræða sem fer fram á fjórum stöðum á Íslandi: 101 Reykjavík, Ísafirði, Skútustaðahreppi og Höfn í Hornafirði. Verkefninu er ætlað að greina hvaða áhrif hrun í umsvifum ferðaþjónustu og breytt starfsumhverfi hennar hefur haft á viðhorf heimamanna til greinarinnar, þ.m.t. hvernig heimamenn upplifi breytingarnar og hverju þeir finni mest fyrir. Þá verður kannað hvort breytingarnar hafi haft mælanleg áhrif á viðhorf til ferðamanna og ferðaþjónustu og verður í því samhengi horft til niðurstaðna úr fyrri rannsóknum sem gerðar hafa verið á rannsóknarsvæðunum fjórum.

Skýrsla með niðurstöðum verður gefin út fyrir hvert rannsóknasvæði í lok sumars 2021. Niðurstöður verða jafnframt gerðar aðgengilegar í gegnum Mælaborð ferðaþjónustunnar.