Styrkur til rannsóknar á samfélagslegum þáttum ferðamannaleiða

@Þórný Barðadóttir 2022
@Þórný Barðadóttir 2022

RMF hlaut á dögunum úthlutun úr Byggðarannsóknasjóði fyrir rannsókn sem ber titilinn Ferðaleiðir um fámenn svæði. Rannsókn á aðkomu og sýn heimamanna á uppbyggingu ferðamannaleiða. Líkt og titillinn ber með sér, beinir rannsóknin sjónum að samfélagslegum þáttum ferðamannaleiða sem fara um jaðarsvæði íslenskrar ferðaþjónustu.

Tilvik rannsóknar er Norðurstrandarleið sem beinir ferðamönnum um hina 900 km löngu strandlengju Íslands. Í rannsókninni er sjónum beint að tveimur af fámennustu svæðum leiðarinnar, Vatnsnesi og Melrakkasléttu. Þar fara ferðamenn að hluta um einhver dreifbýlustu svæði landsins og ferðast til þess um jafnt uppbyggða sem fábrotna og lítt viðhaldna malarvegi.

Tilgangur rannsóknar er að fanga sýn heimafólks á tilurð Norðurstrandarleiðar og aðkomu þeirra í aðdraganda markaðsetningar leiðarinnar auk þess að fanga sýn heimafólks á áhrifum og möguleikum leiðarinnar til atvinnuuppbyggingar í ferðaþjónustu og tengdum greinum.

Meginmarkmið rannsóknar er að veita hagnýta þekkingu sem nýtist við uppbyggingu ferðaþjónustu með stuðningi heimafólks í dreifbýlissamfélögum utan alfaraleiða. Rannsóknir hafa enda sýnt að stuðningur heimafólks er ein meginforsenda þess að vel takist til við uppbyggingu ferðaþjónustu í héraði.

Verkefnið verður unnið í samvinnu við Samband sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) og Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra (SSNV).

Rannsóknin verður framkvæmd sumar og haust 2024. Verkefnisstjóri er Þórný Barðadóttir [thorny @ rmf.is].