Þörf á stórátaki í rannsóknum í ferðaþjónustu

© Valeriya Posmitnaya
© Valeriya Posmitnaya

Stjórn Rannsóknamiðstöðvar ferðamála (RMF) skorar á stjórnvöld að efla rannsóknir á sviði ferðamála til að tryggja megi sjálfbæra nýtingu þeirra viðkvæmu auðlinda sem ferðaþjónusta byggir á og auka verðmætasköpun í greininni.

Rannsóknir eru forsenda skynsamlegrar auðlindanýtingar. Íslendingar hafa alla tíð nýtt náttúruna sér til framfæris, en með misjöfnum árangri eins og dæmin sanna.

Öflugar rannsóknir hafa gengt lykilhlutverki í að tryggja sjálfbæra nýtingu fiskistofna hér við land og koma þannig í veg fyrir að þeim yrði útrýmt líkt og gerðist til dæmis við Nýfundnaland. Eins og sjávarútvegurinn nýtir ferðaþjónustan viðkvæmar auðlindir, ekki aðeins einstætt landslag og náttúrufar, heldur einnig mannauð og innviði samfélagsins. Auðlindanýting ferðaþjónustu verður að byggja á þekkingu. Sú þekking er því miður enn takmörkuð. Rannsóknir á eðli og áhrifum ferðamennsku eru rétt að byrja hér á landi. Þessar ofur viðkvæmu auðlindir geta orðið helsta tekjulind þjóðarinnar til frambúðar, ef – og aðeins ef – rétt verður að málum staðið með skilningi á því hvernig hámarka má arð þjóðarinnar til langs tíma með sem minnstum neikvæðum áhrifum á auðlindir hennar.

Öflugar rannsóknir eru einnig forsenda allrar þróunar og nýsköpunar í atvinnugreininni. Mikilvægi aukinnar verðmætasköpunar í ferðaþjónustu, um allt land, ætti öllum að vera ljós en hún verður ekki úr lausu lofti gripin.

Meirihluti þess fjármagns sem ríkið setur í samkeppnissjóði á sviði rannsókna og nýsköpunar er í umsjón Rannís. Þar skiptir Rannsóknasjóður hvað mestu máli, en þar eru ferðamál ekki skilgreind sem viðfangsefni. Ríkið hefur hins vegar fjármagnað duglega hina ýmsu rannsókna- og nýsköpunarsjóði sem tengjast sjávarútvegi, landbúnaði og orkumálum. Þrátt fyrir gríðarlegan vöxt ferðaþjónustunnar á síðastliðnum áratug hefur sambærilegur sjóður sem snýr að ferðamálum ekki litið dagsins ljós.

Mikilvægi þess að fjárfesta í nýsköpun þekkingar verður aldrei ofmetið, ekki síst þegar um er að ræða unga og lofandi atvinnugrein. Til þess þarf samhæft stórátak í rannsóknum og samvinnu allra sem að málaflokknum vinna.

Öflugt nýsköpunar- og þróunarstarf mun gegna lykilhlutverki í endurreisn íslenskrar ferðaþjónustu um land allt. Stjórn RMF brýnir því stjórnvöld til þess að blása byr í rannsóknarseglin á komandi árum og gera okkur þannig betur kleift að takast á við áskoranir ferðaþjónustu framtíðarinnar. Efling rannsókna á sviði ferðamála er brýnt málefni sem þolir enga bið.