Því meiri samskipti - því meiri jákvæðni

Eftir því sem Íslendingum líkar betur að eiga samskipti við ferðamenn því líklegri eru þeir til að vera jákvæðir í viðhorfum til ferðamanna og ferðaþjónustu. Þá er einnig ljóst að þeir landsmenn sem telja ferðamenn hafa jákvæð áhrif eru mun líklegri en aðrir til þess að upplifa bætt lífsgæði. Þetta er meðal niðurstaðna nýrrar greiningar á viðhorfum Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu og eru birtar í skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.

Greiningarnar í skýrslunni byggja á tveimur viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið meðal Íslendinga. Sú fyrri var gerð haustið 2014 og sú síðari haustið 2017. Kannanirnar eru liður í vöktun á viðhorfum heimamanna til ferðamanna og ferðaþjónustu.

Niðurstöðurnar sýna að viðhorf landsmanna til ferðamanna og ferðaþjónustu hafa að mörgu leyti haldist jákvæð frá því könnun á viðhorfum var fyrst gerð árið 2014. Íslendingar telja ferðaþjónustu enn vera efnahagslega mikilvæga og að ferðamenn auki fjölbreytileika mannlífsins. Almennt eiga landsmenn í góðum samskiptum við ferðamenn og finna enn fyrir bættum lífsgæðum vegna ferðamanna. En viðhorf urðu einnig neikvæðari milli kannana, einkum þegar horft er til áhrifa ferðamanna á umhverfi og náttúru og viðhorfa landsmanna til starfa í ferðaþjónustu.

Jákvætt samband fannst á milli þess að eiga oft samskipti við ferðamenn og mats landsmanna á áhrifum ferðamanna á atvinnulíf, efnahag, mannlíf og samfélag. Því oftar sem landsmenn eiga í samskiptum við ferðamenn því líklegra er að þeir séu jákvæðir í garð áhrifa ferðamanna á atvinnulíf og efnahag sem og mannlíf og samfélag. Einnig var jákvætt samband milli þess hvernig landsmönnum líkar að eiga í samskiptum við ferðamenn og mats þeirra fyrrnefndu á áhrifum ferðamanna. Því betur sem fólki líkaði við að hafa samskipti við ferðamenn því líklegra var það til að vera jákvæðara í mati á áhrifum ferðaþjónustu og ferðamanna.

Niðurstöðurnar gáfu til kynna að landsmenn hafi almennt ekki áhyggjur af fjölda ferðamanna á Íslandi þrátt fyrir öran vöxt í komum erlendra ferðamanna til landsins undanfarin ár. Vísbendingar eru um að mikill fjöldi ferðamanna leiði ekki sjálfkrafa til neikvæðra upplifana heimamanna á fjöldanum heldur velti mat á fjölda á samhenginu hverju sinni. Engu að síður eru neikvæðustu viðhorfin að finna meðal þeirra landsmanna sem töldu fjölda ferðamanna vera of mikinn. Í ljós kom að þeir landsmenn sem töldu ferðamenn vera of marga voru marktækt líklegastir til að finna til versnandi lífsgæða. Aftur á móti virtust hugmyndir landsmanna um neikvæðar hliðar ferðaþjónustu og ferðamennsku ekki vera jafn fastmótaðar og þær jákvæðu.

Rannsóknin var fjármögnuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en skýrsluna í heild má nálgast á vefsvæði RMF.