Aðgerðir til eflingar millilandaflugs á landsbyggð

Icelandair-þotur á Akureyrarflugvelli vorið 2010
Icelandair-þotur á Akureyrarflugvelli vorið 2010

Skýrsla starfshóps um tillögur að eflingu millilandaflugs um aðra íslenska flugvelli en Keflavík var nýverið gerð opinber á heimasíðu forsætisráðuneytisins. Forsætisráðherra skipaði starfshópinn í lok maí sl. til að gera tillögur um hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvelli á landsbyggðinni. Áherslur starfshópsins snéru að alþjóðaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum þar sem markvisst hefur verið unnið að markaðssetningu flugvallanna á undanförnum árum. Starfshópurinn leitaði til Rannsóknamiðstöðvar ferðamála til að vinna skýrslu um svæðisbundin og þjóðhagsleg áhrif af beinu millilandaflugi til Akureyrar eða Egilsstaða. Studdist starfshópurinn við upplýsingar úr þeirri skýrslu við gerð tillagnanna. Auk þess leitaði starfshópurinn álits sérfræðings fjármála- og efnahagsráðuneytisins á sviði ríkisaðstoðar og sérfræðings á sviði leiðakerfa og uppbyggingar nýrra áfangastaða. Enn fremur voru upplýsingar fengnar hjá Transport Scotland og Charter Fund Norway til að skoða þeirra nálgun. Þá kynnti starfshópurinn sér aðstæður á Egilsstöðum og Akureyri.

Í skýrslunni er lagt er til að ríkissjóður styðji við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands með stofnun Markaðsþróunarsjóðs (e. Market Development Fund) og Áfangastaðasjóðs (e. Route Development Fund). Markmiðið er að sjóðirnir hafi hvetjandi áhrif á erlenda sem innlenda aðila. Framlag þeirra skal vera viðbót við framlag annarra þróunaraðila (landshlutasamtaka, flugfélög, markaðsþróunarfélög o.fl.) og greiðast eftir að flug er hafið, nánar tiltekið þegar lágmarkstímabili hefur verið náð og svo mánaðarlega eftir það.

Á grundvelli þessara tillagna hefur ríkisstjórn Íslands ákveðið að fela iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur verið falið að hefja undirbúning að stofnun Markaðsþróunarsjóðs og Áfangastaðasjóðs með það að markmiði að koma á reglulegu millilandaflugi um aðra flugvelli en Keflavík.

Skýrslu starfshópsins er að finna á heimasíðu forsætisráðuneytisins en skýrslu RMF um svæðisbundin og þjóðhagsleg áhrif af beinu millilandaflugi til Akureyrar og Egilsstaða er að finna í viðauka skýrslunnar og hefst á bls. 14. Edward H. Huijbens og Jón Þorvaldur Heiðarsson unnu verkið fyrir hönd Rannsóknamiðstöðvar ferðamála.