Efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum

Lilja B. Rögnvaldsdóttir
Lilja B. Rögnvaldsdóttir

Út er komin skýrsla Lilju B. Rögnvaldsdóttur um efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum. Þar segir af greiningu á svæðisbundnum efnahagsáhrifum ferðaþjónustu og hvaða gögn geta legið þar til grundvallar. Unnið var með hliðsjón af alþjóðlegri forskrift sk. ferðaþjónustureikninga, sem Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur unnið á landsvísu með Hagstofu Íslands.

Vinna Lilju er fyrsta greining sinnar tegundar á áhrifum ferðaþjónustu á afmörkuðu svæði hérlendis. Niðurstöður verkefnisins varpa ljósi á hvaða gögn liggja fyrir til slíkrar greiningar og hvar þar má bæta úr. Einnig sýnir greiningin umfang atvinnugreinarinnar í Þingeyjarsýslum þar sem velta og þjónustukaup ferðaþjónustufyrirtækja innan svæðisins eru metin. Einnig koma fram tölur um fjölda ársverka í atvinnugreininni, launaveltu og stöðugildi sumar og vetur. Þróun á fjölda ferðamanna til svæðisins og gistinátta er einnig lýst sem og greiningu á búsetulandi gesta. 

Skýrslan er lokaafurð þriggja ára samstarfs Rannsóknamiðstöðvar ferðamála, Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík og Þekkingarnets Þingeyinga um mat á svæðisbundnum áhrifum ferðaþjónustu. Er þess vænst að rannsóknin nýtist sem innlegg í upplýsta umræðu og rannsóknir á þessu sviði.

Fjármögnun verkefnisins var að stærstum hluta með sérstakri fjárveitingu mennta- og menningarmálaráðuneytisins til rannsókna í ferðaþjónustu, en Rannsóknamiðstöð ferðamála fór með umsýslu styrkveitingarinnar. Að auki naut verkefnið stuðnings frá Vaxtarsamningi Norðausturlands og Þekkingarneti Þingeyinga.

Skýrsluna má sækja hér.

 

Eftirfarandi skýrslur hafa verið gefnar út á fyrri stigum verkefnisins:
• Tourism Data Collection: Analysis at a sub-national level in Iceland
(Lilja B. Rögnvaldsdóttir, 2014)
• Þróun og staða ferðaþjónustu á Húsavík: Niðurstöður ferðavenjukannana sumrin 2013 og 2014
(Lilja B. Rögnvaldsdóttir, 2014)
• Fémæti ferðaþjónustu: Rannsókn á efnahagslegum áhrifum ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslu
(Lilja B. Rögnvaldsdóttir, 2013)