Erlent starfsfólk í ferðaþjónustu – Hvað má gera betur?

Ýmissa úrbóta er þörf ef takast á að tryggja betur að erlent starfsfólk í ferðaþjónustu verði ekki fyrir brotum á reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. Auk þess er misjafnt hversu vel er staðið að búsetu starfsmanna, þar sem algengt er að vinna og vistarverur erlends starfsfólks í ferðaþjónustu sé samtengt. Flestir erlendir starfsmenn í ferðaþjónustu koma frá austurhluta Evrópu og þarf að huga betur að upplýsingagjöf og samfélagslegu öryggisneti fyrir suma nýrri hópa starfsmanna. Mikil þörf er á öflugra eftirliti af hálfu hins opinbera varðandi málefni erlends vinnuafls í íslenskri ferðaþjónustu og styrkja þar með vinnustaðaeftirlit stéttarfélaga um land allt. Einnig er nauðsynlegt að fræða betur þá sem hefja ferðaþjónustu rekstur og ráða fólk í vinnu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Rannsóknamiðstöðvar ferðamála: Aðstæður erlends starfsfólks í ferðaþjónustu: sjónarhorn stéttarfélaga og starfsfólks.

Höfundar skýrslunnar eru Magnfríður Júlíusdóttir lektor í mannvistarlandfræði hjá Háskóla Íslands og Íris H. Halldórsdóttir sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála. Þær tóku viðtöl við starfsfólk stéttarfélaga utan höfuðborgarsvæðisins og einnig við erlent starfsfólk í ferðaþjónustu víða um landið. Einnig var unnið með sérútkeyrslu gagna frá Hagstofu Íslands, til að kortleggja nánar erlendra ríkisborgara í ferðaþjónustustörfum hér á landi.

Ferðaþjónusta er vinnuaflsfrek atvinnugrein og samfara miklum vexti ferðaþjónustunnar síðast liðinn áratug þurftu ferðaþjónustufyrirtæki að leita út fyrir landsteinana að starfsfólki. Árið 2019 voru erlendir ríkisborgarar að störfum í ferðaþjónustu á Íslandi frá yfir 70 löndum. Þegar horft er á skiptingu starfsmanna eftir ríkisfangi og landshlutum er hlutfall erlendra starfsmanna í ferðaþjónustu hæst á Suðurlandi, 44%, en Suðurnes og Austurland fylgja fast á eftir með 42%.

Rannsóknin sýnir að flokka má fyrirtæki í ferðaþjónustu í þrennt þegar kemur að málefnum erlends starfsfólks:

  • Fyrirtæki sem eru með hlutina í lagi og fara eftir gildandi kjarasamningum og reglum á íslenskum vinnumarkaði
  • Fyrirtæki þar sem gerð eru mistök vegna þekkingarskorts eða fljótfærni eigenda og forsvarsmanna
  • Fyrirtæki sem ítrekað brjóta kjarasamninga að því er virðist af ásetningi og komast refsilaust upp með það

Að mati starfsmanna þeirra átta stéttarfélaga sem tóku þátt í rannsókninni er árangursríkasta leiðin til að stoppa alvarlegustu brotin að stoppa upp í göt í lögum og efla eftirlit opinberra stofnana. Samanlagt hafa þær víðtækar lagaheimildir til að krefjast úrbóta og hafa meiri valdheimildir en aðilar vinnumarkaðarins.

Ímynd og orðspor íslenskrar ferðaþjónustu byggist á því að fagmennska sé sýnd á öllum sviðum reksturs, þ.á.m. í starfsmannahaldi. Því er áríðandi að allir sem koma að skipulagi og rekstri ferðaþjónustu fari eftir þeim leikreglum sem aðilar vinnumarkaðsins hafa samþykkt sín á milli. Einnig er það í samræmi við skuldbindingar Íslands varðandi Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, þar sem eitt af undirmarkmiðunum er að efla mannsæmandi vinnu, með áherslu á farandverkafólk.