Ferðavenjur erlendra ferðamanna sumarið 2016

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) gaf nýverið út sex skýrslur um ferðavenjur og útgjöld erlendra gesta sumarið 2016 á sex áfangastöðum: Ísafirði, Húsavík, Egilsstöðum, Seyðisfirði, í Mývatnssveit og Stykkishólmi.
Rafrænar útgáfur skýrslnanna má sjá með því að smella á viðkomandi staðarheiti hér að ofan.

Skýrslurnar byggja á spurningakönnun sem hefur verið framkvæmd árlega frá sumrinu 2013 á alls ellefu stöðum. Í könnuninni er lögð áhersla á greiningu ýmissa einkennandi þátta erlendra gesta á rannsóknarsvæðunum s.s. búsetulandi, ferðamáta, gistimáta og dvalarlengd auk þess sem ástæða heimsóknar og útgjaldamynstur þeirra er skoðað. Ferðamönnum gafst einnig kostur á að koma á framfæri athugasemdum varðandi dvöl þeirra og upplifun meðan á heimsókn stóð.

Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar reyndust ástæður heimsóknar, dvalartími og neyslumynstur erlendra ferðamanna talsvert ólík eftir stöðum. Aðdráttarafl hvers svæðis var ýmist bundið náttúru þess, afþreyingu eða staðsetningu. Útgjöld tengdust þjónustuframboði á hverjum stað og því sem helst dró ferðamenn til svæðisins. Þegar útgjöldin voru reiknuð á alla gesti svæðisins voru þau hæst á Húsavík þar sem helmingur útgjalda reyndust vera vegna afþreyingar. Gestir staðanna voru almennt ánægðir með dvölina og víða voru jákvæðar athugasemdir um náttúrufegurð og þjónustu en einnig komu fram athugasemdir um það sem betur mætti fara s.s. aðstöðu á tjaldsvæðum, bílastæði, upplýsingagjöf til ferðamanna ofl.

Höfundur og umsjónaraðili verkefnisins er Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir en rannsóknin var samstarfsverkefni Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík. Könnunin var fjármögnuð af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Hún var framkvæmd í júlí og ágúst sumarið 2016 og heildarfjöldi svara var 2623.

Niðurstöður vegna sömu könnunar sumarið 2017 á sex áfangastöðum hafa verið birtar í Mælaborði ferðaþjónustunnar en RMF mun einnig gefa út ítarlegri skýrslur síðar á þessu ári.