Fyrstu niðurstöður könnunar RMF á viðhorfi flugfarþega KEF-AEY kynntar á flugráðstefnu

Frá pallborðsumræðum
Frá pallborðsumræðum

Vorráðstefna Markaðsstofu Norðurlands og Flugklasans Air 66N var haldin á Akureyri í gær, undir yfirskriftinni "Flogið í rétta átt".

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir var meðal frummælenda og kynnti hún fyrstu niðurstöður rannsóknar RMF á viðhorfi ferðamanna í tengiflugi milli Akureyrar og Keflavíkur. Rannsóknin er unnin fyrir Markaðsstofu Norðurlands undir verkstjórn Eyrúnar Jennýjar Bjarnadóttur, sérfræðings á RMF.

Meðal niðurstaðna má nefna að í opnum athugasemdum svarenda mátti sjá að neikvæð ummæli tengdust mörg misræmi í upplýsingum og/eða flugtíðni, auk atriða sem kalla má ófyrirsjáanleg, svo sem bilanir eða tafir.
Jákvæðar athugasemdir sneru fyrst og fremst að mikilli ánægju svarenda með tengiflugið sem valkost við millilandaflug, með auknu hagræði og því að greiða leiðir út í heim.
Þegar kom að tilgangi ferða, reyndist helmingur svarenda í flugi til Akureyrar ferðast vegna heimsókna til vina og ættingja jafnt sumar sem vetur meðan frí var erindi 40 prósenta á sumri og 30 prósenta á vetri.
Í flugi frá Akureyri reyndist tilgangur sumarferðalanga hins vegar í 34% tilfella vera frí og 45% að vetri meðan heimsóknir til vina og ættingja voru 32% að sumri og 29% að vetri.
Þá var tilgangur farar um 10% svarenda í flugi til Akureyrar vinnutengdur óháð árstíð, meðan 17% sumarfarþega frá Akureyri var í þeim erindagjörðum og 16% vetrarferðalanga.

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) sá um gagnaöflun rannsóknarinnar, sem var framkvæmd þannig að spurningalistar voru sendir á skráð netföng farþega. Könnunin var send á 1.500 netföng og bárist svör frá tæplega 700 manns. Rúm 70% svarenda reyndust hafa búsetu á Íslandi og af þeim um 90% á Eyjafjarðarsvæðinu og 94% á starfssvæði Eyþings. Af tæplega 30% svarenda sem búsettir voru erlendis, reyndust að auki 40% vera Íslendingar.

Líkt og áður kom fram voru þetta fyrstu niðurstöður könnunarinnar og er lokaskýrslu að vænta á næstu vikum.