Góð heimsókn frá Västerbotten í Svíþjóð

Síðasta fimmtudag fékk Rannsóknamiðstöð ferðamála heimsókn alla leið frá Västerbotten í Svíþjóð. Hingað komu til landsins þrír starfsmenn Region Västerbotten til að kynna sér uppbyggingu ferðaþjónustunnar hér á landi. Af þessu tilefni bauð RMF til fundar í Háskóla Íslands þar sem rætt var um sjálfbærni og áskoranir í uppbyggingu ferðaþjónustunnar í átt að sjálfbærni. 

Á fundinum kynnti Kajsa Grandics Åberg starfsmaður stofnunarinnar hvernig Region Västerbotten hefur innleitt sjálfbærnivísa Global Sustainable Tourism (gstcouncil.org) í uppbyggingu ferðaþjónustunnar á svæðinu.

Á fundinum kynnti einnig María Reynisdóttir sérfræðingur á skrifstofu ferðamála og nýsköpunar hjá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, aðgerðir hins opinbera og stefnu stjórnvalda í átt að sjálfbærri ferðaþjónustu.

Þá kynnti Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans starfsemi ferðaklasans og hvatningarverkefni ferðaklasans og Festu um ábyrga ferðaþjónustu.

Hér má sjá upplýsingar um samstarf Region Västerbotten og GSTC um uppbyggingu sjálfbærrar ferðaþjónustu á svæðinu.