Hvernig sjá og meta heimamenn minjastaði í sínu nánasta umhverfi?

Orð sem fólk tengir við minjastaði
Orð sem fólk tengir við minjastaði

Ný skýrsla með niðurstöðum rannsóknar á samfélagslegu gildi minjastaða var að koma út í vikunni. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig hvernig heimamenn sjá og meta minjastaði í sínu nánasta umhverfi. Um var að ræða tilviksrannsókn þar sem Hofstaðir í Mývatnssveit voru nýttir sem dæmi en svæðið sem rannsóknin náði yfir nýsameinuð sveitarfélög Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar.

Í verkefninu var lögð áhersla á að öðlast innsýn í samfélagslegt gildi minjastaða fyrir heimamenn og kanna hvort, og þá hvernig, minjastaðir geti gagnast íbúum svæðisins, ásamt þeim mögulegu ávinningum sem hlotist hafa af þeim fornleifarannsóknum sem hafa farið fram á svæðinu í gegnum árin.

Gagnaöflun fór fram á tímabilinu maí til september 2021 og skiptist í þrjá hluta; viðtöl við hagaðila, rýnihópsviðtal við heimamenn og spurningalista sem var sendur út á netinu til íbúa á svæðinu. Niðurstöður sýna að íbúar og aðrir hagaðilar á svæðinu eru almennt sammála um að minjastaðir hafi gildi fyrir samfélagið en það mætti nýta þá meira en nú er gert og standa betur að miðlun upplýsinga um þá. Þátttakendur voru einnig sammála um að frekari uppbygging á Hofstaðasvæðinu myndi vera jákvæð fyrir jafnt íbúa sem og ferðaþjónustuaðila á svæðinu.

Hægt er að lesa skýrsluna og nálgast frekari upplýsinga um verkefnið HÉR.

Verkefnið var unnið að beiðni Minjastofnunar Íslands og var styrkt af evrópska styrktarsjóðnum ESPON.