Mótsagnir árstíðarsveiflu í ferðaþjónustu á norðurslóðum

Til að takast á við áskoranir sem fylgja árstíðarsveiflu ferðaþjónustu á norðurslóðum þurfum við að leggja áherslu á að skilja og huga að viðhorfum heimafólks, málefnum vinnumarkaðar ferðaþjónustunnar og umhverfismálum.

Árstíðarsveifla ferðaþjónustunnar á norðurslóðum hefur verið að fá aukna athygli, jafnt frá þeim sem vinna að uppbyggingu áfangastaða, fyrirtækjum, frjálsum félagasamtökum og sveitarfélögum. Skýrslan Arctic Tourism in Times of Change dregur fram fjögur megin atriði sem nýtast til að lýsa og takast á við áskoranir og möguleika sem felast árstíðarsveiflu ferðaþjónustu. Þau eru: Viðhorf heimafólks, málefni vinnumarkaðar, „Norðurslóðavæðing“ ferðamennsku á norðlægum svæðum og hnattrænar umhverfisbreytingar

Niðurstöður skýrslunnar draga fram að árstíðarsveifla skapar vandamál t.d. þegar hún leiðir til kulnunar frumkvöðla og starfsfólks í ferðaþjónustu á háönn og þegar umhverfislegum þolmörkum er náð. Árstíðarsveifla hefur líka neikvæð áhrif á ímynd ferðaþjónustu sem áhugaverðs starfsvettvangs og ýtir undir þá tilfinningu að ferðaþjónusta bjóði upp á ótrygg láglauna störf. Á hinn bóginn getur árstíðarsveifla verið nauðsynleg fyrir lítil fyrirtæki lífsstílsfrumkvöðla eða frumbyggja sem vilja halda ferðaþjónustu sem hluta af öðru lífsviðurværi og tengja hana takti umhverfis og samfélags, s.s. veiði eða landbúnaði. Árstíðarsveifla skapar líka “hlé” fyrir áreiti sem samfélög geta upplifað mjög sterkt. 

Í skýrslunni eru settar fram tillögur að því hvernig megi þróa hagfellda og sjálfbæra ferðaþjónustu á norðurslóðum. Sem dæmi er lagt til að skipulag og stefnumótun byggi á samhengi og þörf þeirra samfélaga þar sem ferðaþjónusta á sér stað, að tryggja staðbundið eignarhald og yfirráð auðlinda ferðaþjónustunnar, að leita leiða til að gera störf í ferðaþjónustu tryggari, að efla fræðslu til ferðamanna um lífshætti fólks á norðurslóðum og styrkja sjálfbærar samgöngur. 

Skýrslan er afrakstur þriggja ára verkefnis, Partnership for Sustainability: Arctic Tourism in Times of Change sem miðar að því að efla sjálfbærni í ferðaþjónustu á norðurslóðum. Verkefnið er styrkt af Samstarfsáætlun um norðurslóðir á vegum Norræna ráðherraráðsins 2018-2021.

Skýrsla:
Rantala et al. 2019. Arctic tourism in times of change: Seasonality. TemaNord 2019:528. Nordic Council of Ministers.
Aðgengileg: http://urn.kb.se/resolve?urn=urn:nbn:se:norden:org:diva-5592

Frekari upplýsingar:
www.ulapland.fi/ArcticTourism
dr. Outi Rantala, dósent, University of Lapland, outi.rantala(a)ulapland.fi
dr. Gunnar Þór Jóhannesson, professor, Háskóla Íslands, gtj(hjá)hi.is