Nýir ferðaþjónustureikningar birtir

Ferðamenn við Hakið á Þingvöllum
Ferðamenn við Hakið á Þingvöllum

Hlutdeild ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu (VLF) jókst um 55% að nafnvirði á árunum 2009-2013. Hlutur ferðaþjónustu af VLF hefur vaxið nærfellt þrisvar sinnum hraðar en VLF (sem óx um 18,6%) yfir sama tímabil.

 

Þetta kemur fram í samantekt fyrir ferðaþjónustureikninga fyrir árin 2009-2013, sem birtust á vef Hagstofu Íslands í dag. Samantektin var unnin af Rannsóknamiðstöð ferðamála í samvinnu við Hagstofu Íslands og með fjármagni frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Dr. Cristi Frenţ, sérfræðingur RMF mun nánar kynna niðurstöður ferðaþjónustureikningana og aðferðafræði þeirra á sérstökum fundi sem RMF mun standa fyrir í samstarfi við Hagstofuna mánudaginn 5. október (nánar auglýst síðar).

 

Beint hlutfall ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu (VFL) jókst úr 3,6% árið 2009 í 4,6% árið 2014. Hlutur ferðaþjónustu í VLF fór úr 56,3 milljörðum króna árið 2009 í 87,3 milljarða króna árið 2013 (55%). Á sama tíma jókst heildarfjöldi erlendra gesta um 63%. Þegar rýnt er nánar í tölur á bakvið hliðarreikningana má sjá „heildarneyslu erlendra ferðamanna“. Edward Huijbens, sérfræðingur hjá RMF segir að útflutningstekjur ferðaþjónustu hafi komið á óvart: „Það kom okkur töluvert á óvart að útflutningstekjur af ferðaþjónustunni reyndust vera umtalsvert lægri en áður hefur verið talið, eða 165 milljarðar fyrir 2013“, segir Edward. Síðasta vetur birtust ítarlegar skýrslur unnar innan bankageirans um stöðu ferðaþjónustunnar hér á landi. Í skýrslu Landsbankans kom fram að fram blað hefði verið brotið árið 2013 þegar útflutningsverðmæti ferðaþjónustunnar hefðu verið hærri en sjávarafurða og stóriðju eða um 250 milljarðar króna. Það er ljóst að hér er um umtalsvert ofmat að ræða, sem engu að síður er byggt á tölum Hagstofu Íslands um „ferðalög“ og farþegaflutninga með flugi“ (sjá hér, bls. 40). Edward segir: „Það geta verið ýmsar skýringar á þessum mikla mun. Ein þeirra gæti legið í gögnunum sjálfum og hægt væri að spyrja hvort fyrirtæki í ferðaþjónustu séu að láta í té þau gögn sem nauðsynleg eru til að byggja nákvæma greiningu á“.

Vinnsluvirði í ferðaþjónustu hefur einnig aukist, úr 49,7 milljörðum króna árið 2009 í 76,4 milljarða króna árið 2013, sem er vöxtur upp á 54% á nafnvirði. Vinnsluvirði í ferðaþjónustu er með sköttum að frádregnum styrkjum tekið saman sem hlutur ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu.

 

Hlutur ferðaþjónustu í VLF á Íslandi 2009-2013 á verðlagi hvers árs 

Milljarðar króna  

2009

2010

2011

2012

2013

           

Hlutur ferðaþjónustu í VLF

56,3

54,1

61,4

74,8

87,3

   Hlutur ferðaþjónustu af heildarvinnsluvirði  (á grunnverði)

49,7

47,1

52,8

64,1

76,4

   Skattar í ferðaþjónustu að frádregnum styrkjum

6,6

7,0

8,6

10,7

10,9

Verg landsframleiðsla

1.585,5

1.621,0

1.703,2

1.780,2

1.880,9

Hlutfall ferðaþjónustu af VLF

3,6%

3,3%

3,6%

4,2%

4,6%

 

 

Ein af lykilbreytum í útreikningum á hlut ferðaþjónustunnar í þjóðhagsstærðum er hlutfall neyslu ferðamanna af framleiðsluvirði. Sex prósent framleiðsluvirðis komu til vegna ferðaþjónustu árið 2013, borið saman við 4,6% árið 2009. Þetta er yfir 3,9% meðaltali Evrópusambandsins, samkvæmt nýjustu niðurstöðum ferðaþjónustureikninga Evrópsku hagstofunnar (Eurostat) sem birtar voru 2013.

Það sem nýjir hliðarreikningar gefa er endurskoðað hlutfall ferðaþjónustu eftir atvinnugreinum, það er hve mikið af umsvifum fyrirtækja í tilteknum flokki má skýra með þjónustu við ferðafólk. Hlutfall ferðaþjónustu í verslun er mismunandi eftir því um hvaða vörur og þjónustu er að ræða, nema fyrir ferðaskrifstofur og sumarhús (tilreiknaða leigu) er það 100% þar sem báðar greinar byggja að öllu leyti á neyslu ferðamanna. Hlutur ferðaþjónustu er hár fyrir gististaði og leigu á flutnings- og farartækjum, en lægri fyrir menningarþjónustu og smásölu.

Rétt er að vekja athygli á að í þessum ferðaþjónustureikningum eru einvörðungu mæld bein efnahagsleg áhrif ferðaþjónustu innanlands á þjóðhagstærðir eins og VLF. Ekki er tekið tillit til afleiddra áhrifa ferðaþjónustu innanlands, né heldur til annarra þátta sem snúa að innri eftirspurn í ferðaþjónustu (s.s. fjárfestingu og opinberrar samneyslu í ferðaþjónustu).

 

Ferðaþjónustureikningar eru alþjóðlega viðurkennd aðferð sem snýst um mælingar á efnahagslegu vægi ferðaþjónustu. Rétt er að taka fram að fyrri ferðaþjónustureikningar, sem Hagstofan birti fram til ársins 2011, ætti ekki að nota til samanburðar við þá sem hér birtast vegna breyttrar aðferðafræði sem byggir á nýrri og nákvæmari gögnum en áður.

 

Frétt Hagstofunnar um samantekt ferðaþjónustureikninga 2009-2013

Talnaefni Hagstofu um ferðaþjónustu