Rannsóknir RMF og Hagstofunnar á íslenskum ferðaþjónustureikningum hljóta verðlaun á alþjóðavettvangi

Cristi veitir verðlaununum viðtöku í London
Cristi veitir verðlaununum viðtöku í London

Dr. Cristi Frenţ, sérfræðingur Rannsóknamiðstöðvar ferðamála (RMF) hlaut verðlaun á ICOT-ráðstefnunni, alþjóðlegri ráðstefnu um stefnumörkun í ferðaþjónustu, sem haldin var í London af Alþjóðasamtökunum um stefnumörkun í ferðaþjónustu (e. International Association for Tourism Policy, IATOUR). Verðlaunin hlaut hann fyrir bestu fræðigreinina, sem kynnt var á ráðstefnunni. Grein Cristis var önnur tveggja greina sem þóttu framúrskarandi og voru valdar úr hópi tilnefninga af vísindaráði ráðstefnunnar. Verðlaunin, sem voru afhent með viðhöfn í lok ráðstefnunnar, eru til marks um viðurkenningu á alþjóðavettvangi á þeirri vinnu við íslenska ferðaþjónustureikninga sem Rannsóknamiðstöð ferðamála hefur unnið að síðustu tvö ár í samstarfi við Hagstofu Íslands.

 

Greinin, sem Cristi kynnti á ráðstefnunni heitir Útfærsla íslenskra ferðaþjónustureikninga og notkunarmöguleikar þeirra fyrir stefnumörkun í ferðaþjónustu (e. Expanding the Icelandic Tourism Satellite Account and its Possibilities of Using for Tourism Policy). Hún byggir á skýrslu Cristis um sama efni sem kom út á vegum RMF í lok síðasta árs. Í skýrslunni eru settar fram tillögur að heildrænni framsetningu ferðaþjónustureikninga sem sýna fram á efnahagslegt vægi ferðaþjónustunnar fyrir íslenskt hagkerfi. Greinin er nú í rýningu hjá alþjóðlegu tímariti um stefnumörkun í ferðaþjónustu; Current Issues in Tourism Journal.

 

Fyrstu niðurstöður ferðaþjónustureikninganna fyrir árin 2009-2013 hafa þegar verið birtar hér á landi á vef Hagstofunnar. Þar kemur fram að neysla erlendra og íslenskra ferðamanna jókst á tímabilinu. Er það til marks um þann vöxt sem hefur átt sér stað í íslenskri ferðaþjónustu á undanförnum árum. Ferðaþjónustureikningar (e. Tourism Satellite Accounts, TSA) eru alþjóðlega viðurkennd aðferð sem snýst um mælingar á efnahagslegu vægi ferðaþjónustu.

 

ICOT-ráðstefnan var haldin í fimmta sinn í London dagana 24. – 27. júní. Yfirskrift ráðstefnunnar var Frá stefnumörkun í ferðaþjónustu til aðgerða: Viðfangsefni og áskoranir við skuldbindingu um samstarf stefnumótandi aðila og þeirra sem stefnan á við (e. From Tourism Policy into Practice: Issues and Challenges in Engaging Policy Makers and End Users). Um það bil 130 manns frá 40 þjóðlöndum tóku þátt í ráðstefnunni.

 

RMF óskar Cristi hjartanlega til hamingju með viðurkenninguna.