Skemmtiskip: Samvinna móttökuaðila góð - ákvarðanataka á fárra hendi

Þjónustuaðilar skemmtiferðaskipa sjá almennt góða tekjumöguleika tengda komum skipanna hingað til lands. Góð samvinna ríkir meðal þjónustuaðila en ákvarðanataka er þung í vöfum og hver aðili hefur takmörkuð úrræði til áhrifa á komur skipa.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýútkominni skýrslu RMF um niðurstöður viðtalsrannsóknar um móttöku skemmtiferðaskipa á Íslandi.

Í rannsókninni var leitað reynslu og upplifunar hagsmunaaðila sem koma að móttöku og þjónustu við skemmtiferðaskip hér á landi.

Til rannsóknar á móttöku og þjónustu við skemmtiferðaskip í héraði, var afmarkað rannsóknasvæði á Norðurlandi sem náði frá Fjallabyggð í vestri til Norðurþings í austri. Þar var rætt við fulltrúa hafna, sveitarfélaga og ferðaþjónustu. Að auki var rætt við fulltrúa skipaumboða, ferðaheildsala og hagsmunasamtaka sem svöruðu fyrir aðstæður á landsvísu.

Samandregið má segja að niðurstöður sýni að töluverðir tekjumöguleikar geti fylgt komum skemmtiferðaskipa á heimsóknasvæði. Það á sérstaklega við um minni skemmtiferðaskip eða svokölluð leiðangursskip. Þau reynast einnig eftirsóknaverðust þegar kemur að raunhæfri þjónustugetu í héraði og rauntekjum þjónustuveitenda annarra en hafna en tekjur þeirra aukast samhliða aukinni stærð skipa.

Á sama tíma sýna niðurstöður að komum skemmtiferðaskipa fylgja ýmsar áskoranir. Þar má nefna landtöku leiðangursskipa utan hafna sem óvissa ríkir um hvernig takast skal á við, komur stórra skipa eða jafnvel margra skipa á sama tíma með tilheyrandi áskorunum varðandi þjónustugetu, truflun annarrar starfsemi, álag á heimsóknasvæði og innviði. Þá leiðir rannsóknin í ljós að í reynd koma sárafáir aðilar að eiginlegum ákvörðunum um komur skipa og að þjónustuaðilar upplifa ekki að þeir geti haft mikil áhrif þar á. Þá kom fram að þó þjónustuaðilar kjósi ekki að greinin verði háð ákvörðunum æðra stjórnvalds um komur einstaka skipa kalla þeir eftir skýrari leikreglum um umferð og heimsóknir skemmtiferðaskipa almennt.

Niðurstöðuskýrsluna má lesa hér.

Umsjón með rannsókn og höfundur skýrslu er Þórný Barðadóttir, sérfræðingur á RMF [thorny @ rmf.is]