Stuðlagil: Áfangastaður í mótun

Frá Stuðlagili (mynd: ADS)
Frá Stuðlagili (mynd: ADS)

Út er komin skýrsla sem nefnist Stuðlagil: Áfangastaður í mótun. Í skýrslunni eru niðurstöður rannsóknar á áskorunum sem fylgja óvæntri uppgötvun nýs áfangastaðar í viðkvæmri náttúru sem kallar á frekari uppbyggingu.

Stuðlagil er sjálfsprottinn áfangastaður sem komst óvænt á kortið vegna umfjöllunar og birtinga myndefnis á netmiðlum. Á skömmum tíma hefur Stuðlagil á Efra-Jökuldal orðið að þekktum áfangastað sem stöðugt fleiri ferðamenn heimsækja. Aukinni aðsókn ferðamanna hafa fylgt margháttaðar áskoranir fyrir landeigendur og þá sem tengjast ferðaþjónustu á svæðinu. Í rannsókninni er þróun ferðamennsku við Stuðlagil kortlögð og dregin er upp mynd af þeim áskorunum sem aðstandendur standa frammi fyrir þegar nýr áfangastaður ferðamanna tekur að mótast.

Rannsóknin skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta voru vinsældir Stuðlagils á samfélagsmiðlum kannaðar og mat lagt á stöðu umhverfisins og álagssvæða við gilið. Í öðrum hluta voru gerðar talningar á ferðamönnum og spurningalistar lagðir fyrir ferðamenn á svæðinu. Í þriðja hluta voru tekin viðtöl við heimamenn og aðila sem tengjast ferðamennsku á svæðinu.

Rannsóknin, sem unnin var sumarið 2019, er afrakstur samstarfs námsbrautar í land- og ferðamálafræði, Líf- og umhverfisvísindadeildar við Háskóla Íslands og landeigendafélagsins Jökuldalur sf. Rannsóknin var unnin með styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna.

Skýrsluna má lesa hér