Vel heppnað alþjóðlegt málþing um mismunandi leiðir til að takast á við mikinn vöxt í ferðamennsku
Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) og Námsbraut í ferðamálafræði við Háskóla Íslands héldu nýverið alþjóðlegt málþing um mismunandi leiðir til að takast á við mikinn vöxt í ferðamennsku. Yfirskrift málþingsins var: „Tackling Overtourism: Local Responses“. Hugtakið „overtourism“ er tiltölulega nýtt í heimi ferðamálafræðinnar en hugtakið lýsir því ástandi sem verður til á áfangastöðum þar sem heimamenn og/eða ferðamenn upplifa sig aðþrengda vegna of margra ferðamanna. Slíkt ástand leiðir að lokum til þverrandi lífsgæða íbúa og/eða rýrir gæði upplifunar ferðamanna þar sem álag vegna ferðamennsku er komið langt yfir þolmörk áfangarstaðarins. Hugtakið „overtourism“ er andstæða við hugtakið um ábyrga ferðamennsku þar sem áherslan er lögð á að nota ferðaþjónustu til að byggja upp öflugra og betra samfélag. Á þann hátt er unnt að nota ferðmennsku sem tæki til þess að gera staði betri til búsetu fyrir heimamenn og betri heim að sækja fyrir ferðamenn.
Markmið málþingsins var að auka þekkingu og skilning á hugtakinu „overtourism“, hvernig mætti fyrirbyggja að það ástand sem leiðir til offjölgunar ferðamanna skapist á einstaka stöðum sem og að kanna leiðir til inngripa sem tryggja sjálfbæra þróun ferðamennsku á stöðum þar sem fjöldi ferðamanna og umfang ferðaþjónustunnar hefur orðið of mikið.
Auk ofangreindra markmiða einblíndi ein málstofa málþingsins sérstaklega á ferðamennsku í Barcelona og hvernig yfirvöld þar hafa tekist á við þau vandamál sem þar hafa skapast vegna ágangs ferðamanna í borginni og hvaða lærdóm megi draga af því. Málstofan og pallborðsumræður um ferðamennsku í Barcelona var í beinu streymi á Facebook (sjá upptökur frá fyrirlestrum og frá pallborðsumræðum).
Málþingið var hluti af alþjóðlegri ráðstefnuröð um ábyrga ferðamennsku á áfangastöðum (e. International Conference on Responsible Tourism in Destinations). Það eru Samtök um ábyrga ferðamennsku (e. Responsible Tourism Partnership), sem standa að ráðstefnuröðinni og var þetta sú 13. í röðinni. Samtök um ábyrga ferðaþjónustu voru stofnuð árið 2002. Sama ár var fyrsta ráðstefnan haldin í Cape Town, Suður-Afríku og síðan þá hefur ráðstefnan verið haldin víða um heim þ.m.t. Indlandi, Óman, Bretlandi, Kanada, Finnlandi og nú síðast á Íslandi, en málefni tengd ábyrgri ferðaþjónustu eru ætíð í brennidepli.
Samningar um rannsóknasamstarf
Á málþinginu skrifuðu Háskóli Íslands, Rannsóknamiðstöð ferðamála og Háskólinn í Plymouth undir viljayfirlýsingu um samstarf á sviði rannsókna. Markmið samstarfsins er einkum að stuðla að eflingu rannsóknahópa sem skoða áhrif ferðaþjónustu frá ýmsum sjónarhornum. Í lok málþingsins var lagður grunnur að stofnun fjögurra rannsóknahópa sem varða málefni eins og ferðamennsku á friðlýstum svæðum, samfélagsleg áhrif ferðamennsku og ferðaþjónustu, vinnuafl í ferðaþjónustu og aðferðir og leiðir við að meta áhrif fjöldaferðamennsku. Rannsóknamiðstöð ferðamála mun halda utan um vinnu þessara hópa á næstu mánuðum.
Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður RMF, Anna Dóra Sæþórsdóttir, deildarforseti líf- og umhverfisdeildar Háskóla Íslands og John Swarbrooke, prófessor við Háskólann í Plymouth undirrituðu viljayfirlýsingar um rannsóknasamstarf (mynd: Michaël Bishop)