Verðlaun fyrir lokaverkefni um ferðamál fyrir skólaárið 2015

Berglind Ósk Kristjánsdóttir
Berglind Ósk Kristjánsdóttir

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) afhentu í dag Berglindi Ósk Kristjánsdóttur 100.000 króna verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi.

Berglind skrifaði BA-verkefni sitt við ferðamáladeild Háskólans á Hólum, en það nefnist Viðhorf mikilvægis starfsþjálfunar í ferðaþjónustu, dæmi frá veitingastöðum á Húsavík. Verðlaunin voru afhent þriðjudaginn 15.mars, á ársfundi SAF í Reykjavík. Það var Grímur Sæmundsen, formaður SAF, sem afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn.

Í ritgerðinni fjallar Berglind um mikilvægi starfsþjálfunar í ferðaþjónustu og með hvaða hætti er staðið að slíkri þjálfun. Beindi hún sjónum sínum sérstaklega að starfsþjálfun á veitingastöðum, en helstu vandamálin við ráðningar eru há starfsmannavelta og fækkun á faglærðu starfsfólki, ekki síst úti á landsbyggðinni. Í rannsókn sinni skoðaði Berglind hvernig veitingastaðir á Húsavík standa að starfsþjálfun og hversu mikilvægt það er að þjálfa starfsfólk til þess að veita góða þjónustu.

Með viðtölum við yfirmenn og starfsfólk veitingastaða á Húsavík komst Berglind að því að erfitt er að fá fagfólk til heilsársstarfa sem kemur til vegna stuttrar háannar úti á landi. Því er ungt fólk ráðið til starfa, oft reynslulaust skólafólk en starfstími þeirra er yfirleitt tímabundinn. Dregur Berglind þá ályktun að fyrir vikið megi áætla að oft sé fagmennska takmörkuð í þessum geira þar sem starfsmannaveltan getur verið mikil. Leiðbeinandi Berglindar var Ingibjörg Sigurðardóttir, lektor, við ferðamáladeild Háskólans á Hólum.

Í umsögn dómnefndar segir:

Berglind er verðugur handhafi lokaverkefnisverðlauna Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2015. Með rannsókn sinni varpar Berglind ljósi á þarfan þátt starfsþjálfunar í ferðaþjónustu í hinum hraða vexti greinarinnar hér á landi. Lokaritgerð hennar er unnin samviskusamlega, af metnaði og fagmennsku. Ritgerðin er vel uppsett, fræðilegur grunnur góður og efnistök eru skýrt afmörkuð.

Helstu niðurstöður Berglindar eru að þjálfun starfsmanna er fyrst og fremst óformleg. Kröfur til umsækjenda eru litlar, þar sem veitingastaðir á Húsavík telja sig ekki vera í stöðu til þess að ætlast til of mikils sökum mikillar árstíðasveiflu. Viðmælendur Berglindar töldu starfsþjálfun mikilvæga en markviss þjálfun er ekki til staðar. Engu að síður greindi Berglind hjá viðmælendum sínum áhuga á aukinni formlegri starfsþjálfun og menntun með styttri námskeiðum. Af þessu dregur hún þá ályktun að fagmennska sé forsenda þess að greinin njóti meiri virðingar í samfélaginu. Berglind bendir á að efla mætti færni þeirra sem þjálfa til að standa að nýliðaþjálfun. Jafnframt leggur hún til að gera þurfi kröfur til þeirra sem stofna og reka fyrirtæki í ferðaþjónustu og að gera þurfi greinina aðlaðandi atvinnugrein fyrir metnaðarfullt og hæft vinnuafl.

 

Í ár komu 6 verkefni til greina en þau voru tilnefnd af kennurum tveggja opinbera háskóla á Íslandi sem sinna kennslu og rannsóknum í ferðamálum, Háskóla Íslands og Háskólans á Hólum. Þetta var 1 lokaverkefni úr grunnnámi og 5 lokaverkefni á framhaldsstigi, en þau má skoða hér að neðan.

Berglind Ósk Kristjánsdóttir. Háskólinn á Hólum, BA. Leiðbeinandi Ingibjörg Sigurðardóttir Viðhorf til mikilvægis starfsþjálfunar í ferðaþjónustu, dæmi frá veitingastöðum á Húsavík

Emilia Prodea. Háskóli Íslands, MS. Leiðbeinandi Dr. Rannveig Ólafsdóttir og Dr. Lára Jóhannsdóttir. The role of the accommodation sector in sustainable tourism. Case Study from Iceland

Hafþór Óskarsson. Háskóli Íslands, MS. Leiðbeinendur Dr. Katrtín Anna Lund og Dr. Sigurjón Baldur Hafsteinsson. Frásagnir og iðkun í eyðibýli: Upplifun ferðamanna á óhefðbundnum áfangastað

Iryna Charnykh. Háskóli Íslands, MS. Leiðbeinandi Dr. Gunnar Óskarsson. On Shore VS on Board. Market segmentation of Cruise passengers Visiting Iceland and Marketing of Local Products and Services to Them

María Carolina Castillo. Háskóli Íslands, MS. Leiðbeinendur Auður Hermannsdóttir og Kári Kristinsson. Online Hotel Reviews and Potential Customers: Does the Response Strategy Matter? 

Zsófia Cságoly. Háskóli Íslands, MS. Leiðbeinendur Dr. Anna Þóra Sæþórsdóttir og Dr. Rannveig Ólafsdóttir. On the Edge of the Wild:Day and overnight visitors’ setting preferences.  

 

Dómnefnd Lokaverkefnisverðlaunanna skipa: María Guðmundsdóttir, fulltrúi Samtaka ferðaþjónustunnar, Laufey Haraldsdóttir, fulltrúi stjórnar Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála.