Aðalfundur stjórnar RMF haldinn að Hólum

Stjórn og starfsfólk RMF við Nýjabæ á Hólum
Stjórn og starfsfólk RMF við Nýjabæ á Hólum

Aðalfundur RMF var haldinn í gær, mánudaginn 23. maí, að Hólum í Hjaltadal. Stjórn og starfsfólk RMF lagði af stað um morguninn frá Reykjavík og Akureyri og hittist í Skagafirði. Heima á Hólum tók Erla Björk Örnólfsdóttir, fráfarandi rektor Háskólans á Hólum á móti hópnum og ræddi við hann um mikilvægi samstarfs háskólanna um RMF. Aðalfundurinn hófst kl. 13:15 og var með hefðbundnu sniði. Auk stjórnar sátu fundinn Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðukona RMF, Eyrún Jenný Bjarnadóttir, og Ása Marta Sveinsdóttir, sérfræðingar RMF og kynntu þær helstu rannsóknir síðasta árs.

Ársskýrsla RMF 2021 var kynnt á fundinum en hana má finna hér á vefnum.

Að loknum aðalfundi kynnti Ólöf Ýrr Atladóttir, sviðsstjóri rannsókna, nýsköpunar og kennslu við Háskólann á Hólum helstu verkefni sviðsins og framtíðarsýn. Þá ræddi dr. Ingibjörg Sigurðardóttir deildarstjóri ferðamáladeildar Háskólans á Hólum um nám, rannsóknir og framtíðarsýn deildarinnar. Eftir það buðu heimamenn gestum í stutt rölt um Hólastað með viðkomu í Bjórsetri Íslands, þar sem Bjarni Kristófer Kristjánsson rakti sögu og starfsemi setursins auk Bjórhátíðarinnar á Hólum.

Stjórn og starfsfólk RMF snæddi góðan kvöldverð ásamt gestum frá ferðamáladeild Háskólans á Hólum að Sveitasetrinu Hofsstöðum áður en leiðir skildu eftir ánægjulega samveru. Myndirnar sem hér fylgja tóku Eyrún Bjarnadóttir, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir. 

 

 

Veðurblíða á Hólum

 

RMF þakkar starfsfólki Háskólans á Hólum fyrir hlýlegar móttökur og gestrisni.