Auglýst er eftir nemendum í spennandi rannsóknaverkefni í sumar á sviði ferðamála

Rannsóknamiðstöð ferðamála leitar að tveimur nemendum í sumar til að sinna rannsóknaverkefni sem fjallar um sköpunarkraft og nýsköpun í ferðaþjónustunni á krísutímum.

Um er að ræða verkefnastyrk frá nýsköpunarsjóði námsmanna sem felur í sér laun fyrir tvo nemendur í þrjá mánuði. Gert er ráð fyrir að nemendur hefji störf um miðjan maímánuð en nákvæm tímasetning er samkomulagsatriði.  

Rannsókninni er ætlað að varpa ljósi á það hvort og þá hvaða hlutverki sköpunarkraftur og nýsköpun hafa gengt í krísustjórnun ferðaþjónustunnar á Suðurlandi. Suðurland er sá landshluti, fyrir utan höfuðborgarsvæðið, sem flestir erlendra ferðamanna hafa sótt heim og óvíða á landinu hefur uppbygging ferðaþjónustu verið jafn umfangsmikil og raun ber vitni.

Markmiðið rannsóknarinnar er annars vegar að fá skilning á aðstæðum ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni í þessu ástandi og innsýn í þá þætti, bæði innan fyrirtækjanna og í starfsumhverfi þeirra, sem eru líklegir til að efla þrautseigju greinarinnar og hins vegar að meta hvaða hlutverki sköpunarkrafur og nýsköpun gegna í aðstæðum sem þessum.

 

Kröfur um hæfni

  • Að nemandi sé á þriðja ári í grunnnámi í ferðamálafræði, viðskiptafræði eða sambærilegum greinum
  • Að nemandi hafi tekið áfanga sem snýr að eigindlegum rannsóknaraðferðum og þá viðtalsrannsóknum hvað helst
  • Að nemandi geti sýnt sjálfstæði í vinnubrögðum og geta einnig unnið vel með öðrum

Þeir nemendur sem munu sinna þessu verkefni þurfa að greina viðeigandi fræðilegt efni og gögn og mynda viðtalsramma, í framhaldinu að því að taka viðtöl við hagaðila ferðaþjónustunnar, greina gögnin og skrifa rannsóknarskýrslu.

Umsjónaraðili þessa rannsóknarverkefnis er Íris H. Halldórsdóttir hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála  en unnið verður í nánu samstarfi við Markaðsstofu Suðurlands.

 

Ef áhugi er fyrir að taka þátt í þessu verkefni endilega hafa samband í gegnum netfangið [irish@rmf.is]. 

 

Umsóknarfrestur er til 25. apríl næstkomandi.